Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanninum fyrir andsvarið. Ég er gjörsamlega algjörlega sammála. Við getum horft á frétt sem var núna síðast í kvöld í fréttatíma RÚV, að einstaklingur, eldri borgari í hjólastól, er tekinn hreppaflutningum og fluttur út á land. Og hvað ætlar viðkomandi að gera? Hann ætlar að fara í mótmælakeyrslu til Reykjavíkur því honum finnst þetta ósanngjarnt. Hann er rifinn frá fjölskyldunni og fluttur út á land. Þá hugsar maður: Hvað eru margir í þessum aðstæðum? Það eru 200 einstaklingar undir 67 ára inni á hjúkrunarheimili, hreppafluttir, þvingaðir. Og hvers vegna skyldi það vera? Jú, afsökunin hlýtur alltaf að vera sú sama: Það eru ekki peningar til byggja hjúkrunarheimili. Á sama tíma er líka ósamið við t.d. sjúkraþjálfara. Einstaklingur sem fer núna til sjúkraþjálfara þarf að borga 1.500 og eitthvað krónur aukalega fyrir hvern einasta tíma. Fullt af fólki hefur ekki efni á því að borga 10.000–12.000 kr. aukalega á mánuði. En hvað segir ríkisstjórnin? Við erum bara með ókeypis heilsugæslu. Við erum alltaf að lækka en þeir bara færa hlutina til. Það kostaði ekki nema 500 kr. á heilsugæsluna þegar þeir lækkuðu það niður í 0 en það kostar 1.500 kr. hjá sjúkraþjálfara, þrisvar sinnum meira. Það eru svona tilfærslur. Á sama tíma er ríkisstjórnin auðvitað ekki upptekin við að leysa þessi vandamál. Nei, hún er upptekin við að selja banka og borga einhverjum einstaklingum 700 milljónir í þóknun, búnir að borga 1.300 milljónir, 2 milljarða í þóknun fyrir að selja eitthvað sem allir vilja kaupa. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það sé verið borga fólki svona mikinn pening fyrir það að selja það sem allir vilja kaupa?