Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ömurlegt í rauninni að horfast í augu við það hvenær peningarnir eru til og hvenær ekki því á endanum er það pólitísk ákvörðun í hvað við verjum sameiginlegum sjóðum okkar og hvernig við fjármögnum, hvort sem það er heilbrigðiskerfi eða velferðarkerfi eða annað. Við vitum auðvitað öll í þessum sal að heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað, hefur verið það árum ef ekki áratugum saman og þegar ég, eins og ég gerði í morgun, stóð frammi fyrir þessari tölu, 696 milljónum í samanburði við 700 milljónirnar, þá einhvern veginn afhjúpast fyrir manni í rauninni siðlaus framganga. Ég ætla bara að segja það. Mér finnst þetta siðlaust, frú forseti. Mér finnst það siðlaust að það sé hægt að greiða 700 millj. kr. fyrir það að selja eignarhluta ríkisins í banka — sem er jú einhver vinna, ég ætla ekki að gera lítið úr því — samanborið við það að stjórnvöld eru ekki að semja við heilbrigðisstéttir sem veita nauðsynlega þjónustu, hvort sem það eru sjúkraþjálfarar, sálfræðingar, geðlæknar eða aðrir. Minnug þess að stjórnarandstaðan kreisti út með harmkvælum 150 millj. kr. fyrir jólahlé í samninga við sálfræðinga, höfum það í huga, frú forseti, þegar við berum saman upphæðir og ríkisútgjöld og í hvað þau fara.