Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þakka fyrir það að við séum að ræða hér grunnpólitísk atriði. Ég ber virðingu fyrir því að Flokkur fólksins kemur hingað upp og segir: Það á ekki að selja bankana. Bara gott. Það er bara skýr stefna. En ég er algerlega ósammála því aftur á móti að bera það á borð fyrir almenning að þær arðgreiðslur sem hafa átt sér stað út úr Íslandsbanka á síðustu árum sé eitthvað sem hægt sé að reikna með í ríkissjóð á næstu árum. Það er í mesta lagi algjör fásinna því að við vitum alveg hvað hefur myndað þessar stóru upphæðir í hagnaðinum í bönkunum. Það er ekki kreditkortayfirfærslan eða yfirdrátturinn eða almenn lántaka hjá almenningi í landinu. Það er fyrst og fremst endurmat á þeim eignum sem eru þarna inni. Ég hygg að hv. þingmaður þekki það mjög vel og að flestir sem þekkja eitthvað til bankarekstrar myndu benda okkur á að þetta geti ekki verið væntar arðgreiðslur um langan tíma.

Aftur á móti held ég að það sé líka mikilvægt að koma inn á það sem hv. þingmaður talar hér um, þ.e. þann hóp sem höllustum fæti stendur í samfélaginu. Ég get verið hjartanlega sammála hv. þingmanni að þar þurfi að gera betur. Hvaða upphæðir fara á ári hverju í vaxtagreiðslur ríkissjóðs? Um 6–7% af heildarútgjöldum okkar fara í að greiða vexti af lánum. Það að við höfum núna selt hlut í bankanum, tekið inn rúmlega 100 milljarða til að lækka skuldabyrðina, eigum enn þá stóran hluta af bankanum, hlýtur að vera einmitt það sem kemur þeim sem verst standa hvað best.

Spurning mín til hv. þingmanns er: Áttar hv. þingmaður sig ekki örugglega á því að þær arðgreiðslur sem komið hafa út úr bankanum á síðasta ári geta engan veginn gefið fordæmisgildi á það hvað koma skal á næstu árum?