Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:05]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er hjartanlega sammála því og ég held að allir sem horfa kalt á atburðarásina og tímalínuna sjái það. Það blasir við að eftir margra daga þögn af hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar, þau virtust einhvern veginn öll horfin á sama stað í páskafrí og voru öll utan þjónustusvæðis, birtist þessi fréttatilkynning um að formennirnir þrír hafi tekið ákvörðun um að leggja niður Bankasýsluna. Þarna finnst mér líka birtast þessi rammíslenska meðvirkni á stjórnarheimilinu; það er ekki hann, ekki hæstv. fjármálaráðherra, sem ber ábyrgðina heldur hinn. Og það er Bankasýslan. Ég hef líka aðeins velt því fyrir mér, í ljósi þeirra orðaskipta sem þjóðin varð vitni að á milli forystumanna ríkisstjórnarinnar, þessara orða hæstv. viðskiptaráðherra um að hún hafi viðhaft einhver varnaðarorð í ráðherranefndinni um efnahagsmálin, hvort það sé ástæða þess að þessi SMS-samskipti, eða hvað þetta var, fóru fram á milli formannanna þriggja um að þetta yrðu örlög Bankasýslunnar en ekki á milli þeirra þriggja ráðherra sem höfðu sýslað með bankasöluna, þ.e. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Allt í einu var viðskiptaráðherra ekki lengur hluti af samtalinu því það eru þá orðnir formennirnir sem taka þessa ákvörðun. Hvort það hafi tengst veit ég ekki. En ég er einlæglega sammála þessu mati hv. þingmanns um að það blasir auðvitað við að þetta var ákvörðun sem var tekin í einhverju dauðans ofboði, sennilega með þeirri afleiðingu að ríkisstjórnin braut þessi lög um Stjórnarráðið, um það hvernig á að taka svona ákvarðanir.