Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hvernig skilur hv. þingmaður þá eftirfarandi tilvitnun um sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum:

„Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.“

Eins og ég skil þetta þá þarf einmitt að skoða einstaka tilboð þegar um hefðbundið tilboðsferli er að ræða, nákvæmlega eins og var í seinni sölu Íslandsbanka. Þessi setning beinist einmitt að ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður skilji það þannig að það sé ráðherra prívat og persónulega sem fer með rauða yfirstrikunarpennanum sínum yfir þetta eða hvort það sé ekki einmitt stjórnsýsla ráðherra, sem ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á, sem gerir þetta.