Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitthvað dásamlega krúttlegt við það að Vinstri græn af öllum, hv. þingmenn í þeim flokki, seilist einna lengst til að koma allri ábyrgð frá ráðherra yfir á Bankasýsluna. Það kom mjög skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan að hann skrifar undir og samþykkir söluna vegna þess að hann hafði fengið einhverjar upplýsingar. Það er enginn að tala um að hann hefði þurft að fara í einstakar kennitölur. En þegar það blasti við að í lokuðu útboði, þar sem meiningin var að draga að fáa langtímafjárfesta, voru nöfn 200 kaupenda hefði það mögulega átt að kveikja einhver viðvörunarljós hjá ráðherra og hann hefði átt að spyrja frekar út í það.

Það er bara forseti sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Hæstv. fjármálaráðherra er auðvitað hlekkur í allri þessari ákvarðanatöku með því að skrifa undir. (Forseti hringir.) Hann myndi ekki geta skrifað undir ef hann fengi ekki einhverjar lágmarksupplýsingar frá Bankasýslunni. Ekki rétt?