Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það held ég að sé hluti af vandanum hér, að manni finnst einhvern veginn einsýnt að þingflokki VG hugnist sú leið að upplýsa hálfa söguna, skoða undirmennina en ekki yfirmennina. Tekin er pólitísk ákvörðun um að fara í lokað útboð með ákveðnum afleiðingum. Þá eiga sér stað pólitísk samtöl í ráðherranefnd um efnahagsmál. Auðvitað þarf að upplýsa alla anga málsins og það þarf að gera með verkfærum sem geta gert það, eins og með rannsóknarnefnd. Það er holur hljómur í því að standa hér og tala um að bæta þurfi upplýsingagjöf, að skort hafi upp á gagnsæi en neita öllu samtali um pólitísku ábyrgðina eða ætla að upplýsa um það hver var pólitískur veruleiki málsins.