Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé enginn að neita því að fara yfir og skoða þetta ferli. Hæstv. fjármálaráðherra lagði fram tillögu hér sem hann byggði á tillögu Bankasýslunnar. Ég veit ekki betur en að þar hafi allt verið eftir hinu lögformlega ferli. En ég bind vonir við að þetta sé eitt af því sem verið er að skoða og ég tel að Ríkisendurskoðun hafi þær heimildir sem til þarf til að skoða það ferli. Ég tel að Ríkisendurskoðun hafi þær heimildir, en ef það kemur í ljós að eitthvað vantar upp á þá verðum við að fara í frekari rannsóknir. Miðað við það sem ég hef lesið af lögum um Ríkisendurskoðun þá tel ég að hún hafi verulegar heimildir til að fara í rannsókn og þess vegna hlakka ég til að sjá þeirra niðurstöður og vona að þær varpi skýrara ljósi á málið.