152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði mikið hér áðan um að það væri búið að vera að þyrla upp moldviðri. Hv. þm. Sigmar Guðmundsson benti á hið augljósa, að það eru stjórnarliðar sem hafa verið að þyrla upp moldviðri með því að gera því skóna, af því að við hefðum fengið bankana gratís og búið væri að gera svona miklar eignir úr þeim, þá skipti það nánast engu máli hvernig farið væri með þær eignir. Það er hins vegar moldviðri og það birtist í því að almenningur áttar sig ekki á því hvað átti sér stað og það hefur grafið undan trausti.

Ég ætla að tala aðeins um traust. Þetta er yfirlætislaust og stutt orð en það felst dálítið mikið í því. Okkur stjórnmálafólki er m.a. trúað fyrir því að fara með eigur almennings, stundum að selja þær með hag almennings að leiðarljósi, ákveða framkvæmdir og þar fram eftir götunum. Þá er mjög mikilvægt að við njótum trausts í okkar störfum. Við stjórnmálamenn eigum allt undir að almenningur beri traust til okkar. Ef við fyrirgerum því þá erum við á hálum ís. Við þekkjum það vel að eftir hrun hvarf þetta traust almennings á stjórnmálum og smátt og smátt hefur það verið að byggjast upp aftur. Þessi stjórn var að eigin sögn ekki síst mynduð frá vinstri til hægri til að byggja upp traust þó að í reynd hafi þetta fyrst og fremst verið stjórn mynduð um kyrrstöðu og varðstöðu um sérhagsmuni. En það er önnur saga. En með vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar núna þá finnum við að þetta dýrmæta traust almennings, sem hefur verið að byggjast upp á síðustu árum, hefur beðið hnekki og við sjáum vísbendingar um það í nýrri Maskínu-könnun í kvöld.

Af hverju er það? Jú, það er einfaldlega vegna þess að fólki er algjörlega misboðið. Það er fólk út um allt samfélag að tala um þessa bankasölu. Fólk er sárt og fólk er hneykslað. Fólk mætir á mótmæli, fólk tjáir sig á netinu og á vinnustöðum og hvar sem það kemur saman. Og hvers vegna er fólki misboðið? Jú, það er vegna þess að það kannast við vinnubrögðin. Það kannast við persónur og leikendur sem dúkka upp. Það horfir á leikreglurnar í þessari bankasölu og það minnir svo óþyrmilega á hluti sem tíðkuðust fyrir tíu árum. Það horfir upp á eign almennings vera selda með afslætti til útvalinna vildarvina. Það horfir upp á náin tengsl fjármálaráðherra við kaupendur sem kaupa með afslætti í lokuðu útboði og það horfir upp á ríkisstjórnina og ráðherrana rjúka upp til handa og fóta, leggja Bankasýsluna niður þegar reiðialdan rís í samfélaginu þegar nöfnin koma í ljós, nöfnin sem átti aldrei að birta, þegar leikendur og persónur koma í ljós.

Og hvað gerðist svo? Við sjáum ríkisstjórnina fyrst lýsa því yfir að hún ætli að leggja niður Bankasýsluna en á sama tíma er hún ekki tilbúin til að ræða ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra fyrr en rannsókn hefur átt sér stað einhvern tímann í sumar. Nú talar hæstv. fjármálaráðherra eins og það eigi bara að sjá til með þetta allt saman. Það er ekkert til þess fallið að auka traust í samfélaginu þegar ráðherrar tala út og suður eftir því hvaða stjórnarflokki þau tilheyra. Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali 19. apríl: Það er okkar mat að það hafi sýnt sig í gegnum þessa nýjustu atburði að þetta fyrirkomulag krefjist endurskoðunar. Við viljum styrkja þátt Alþingis þegar kemur að því að taka ákvarðanir, til að mynda um sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Sama dag segir hún á Vísi að hún sé hugsi yfir því að ekki hafi verið hafður lágmarksbinditími varðandi kaup á útboðinu. Það hafi ekki heldur verið sett lágmarksfjárhæð í kaupum. Það var þó a.m.k. þeirra hlutverk að stoppa þetta ef þau töldu að Bankasýslan væri á rangri braut. Það gerðu þau ekki.

Þessi orð hæstv. forsætisráðherra eru náttúrlega sérstaklega merkileg í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra sagði í viðtali um helgina að það hafi alls ekki komið honum á óvart, að það hafi verið fyrirséð, hversu margir smáir aðilar seldu bréfin sín strax. En við skulum muna að ákveðið var að fara í þetta ferli með þessum hætti og allir stjórnarliðar hafa tekið undir það. Það var beinlínis ætlast til þess að við myndum laða að okkur styrka, öfluga langtímafjárfesta. Útkoman varð hins vegar sú að það eru margir skammtímafjárfestar. Þetta var veisla fyrir útvalda og í boði almennings.

Það hefur lítið heyrst frá Framsóknarflokknum nema kannski helst frá hæstv. ferða-, menningar- og viðskiptaráðherra, en hún hefur skýrt frá því að hún hafi verið andsnúin þeirri leið sem var farin. Hún segir í viðtali:

„Ég var ekki hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við sölu á bréfum í Íslandsbanka. Vildi almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Þessum sjónarmiðum mínum kom ég skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins.“

Í samantekt, stuttri samantekt, hefur hæstv. forsætisráðherra talað eins og henni hafi komið á óvart að útboðið skyldi fara eins og það fór, hæstv. viðskiptaráðherra hefur talað um að hún væri beinlínis andsnúin þeirri aðferðafræði sem valin var en hæstv. fjármálaráðherra hefur aftur á móti talað um að þetta hafi allt verið eins og best verður á kosið þegar heildarmyndin væri skoðuð. Hann hljómaði kannski ekki alveg eins kokhraustur 8. apríl vegna þess að þá sagði hann: „Það er alveg augljóst að þetta útboð fór ekki eins og við helst óskuðum.“ Þau slá í og úr eftir því hvernig vindarnir og umræðan blása.

Þann 19. apríl, svo að ég fari aðeins betur yfir þetta, lýsir ríkisstjórnin því svo yfir að annmarkar hafi verið varðandi gagnsæi og upplýsingagjöf og hún hyggist leggja Bankasýsluna niður, hafði ekkert rætt um það áður. Þetta eru augljós viðbrögð við því að almenningi var misboðið. 83% þjóðarinnar lýstu sig andvíg þessari sölu. Tveimur dögum síðar birtist hæstv. fjármálaráðherra í viðtali. Þá ákvað hann að nota aðra taktík, nota hrokann, og hann svarar um kaup föður síns: Var honum bannað að kaupa? Rétt eins og málið snúist um það að faðir ráðherra geti ekki verið fjárfestir. Þó að ráðherrann sjálfur komi ekki auga á hvað þetta er skrýtið og ankannalegt, og að þessi nánu tengsl eru ekki eðlileg, hefði það a.m.k. átt að kalla fram viðbrögð hjá forystumönnum hinna tveggja ríkisstjórnarflokkanna. Það er augljóst að nú ætla allir að leggjast á eitt til að halda hlífiskildi yfir algjörlega óásættanlegri aðkomu fjármálaráðherra að þessari sölu. Tónninn í þessari ríkisstjórn hefur þróast frá því að vera hugsi yfir niðurstöðu sem veldur almennri hneykslan yfir í gamaldags forherðingu þeirra sem með valdið fara. Og við heyrðum nokkrar birtingarmyndir þess í dag, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og einnig frá hæstv. forsætisráðherra.

Tíminn er að verða búinn þannig að ég kemst ekki yfir mikið meira. Ég ætla þó að segja að það þarf ekki að rýna lengi í þessa Íslandsbankasölu til að sjá að þetta ferli er langt frá því að vera ásættanlegt og langt frá því sem við getum sætt okkur við. Ég vona svo sannarlega að stjórnarliðar komi með okkur í þá vegferð að krefjast þess að stofnuð verði rannsóknarnefnd á vegum þingsins. Þetta hefur ekki vakið traust og traust er þrátt fyrir allt dýrmætasta eign stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og Alþingis. Án þess að við upplýsum málið til fulls munum við ekki endurheimta það. Það er miklu meiri hætta á því að þetta haldi áfram að grafa undan öllum okkar störfum, trúverðugleika ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst en líka trúverðugleika Alþingis.