Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir orðum hv. þingmanns um mikilvægi traustsins. Það er nú einu sinni svo að traust var svar löggjafans um það hvernig ætti að græða það sár sem varð við fjármálahrunið. Traustið hefur verið eins og rauður þráður í allri okkar lagasetningu um fjármálafyrirtækin í kjölfar bankahrunsins og mér finnst það svo grátlegt að rúmum áratug eftir bankahrunið hafi ríkisstjórnin ekki hugsað meira um þessa breytu sem sjálfstætt element í málinu, að almenningur þyrfti að geta treyst ferlinu. Traust almennings er forsenda þess að hægt sé að tala um vel heppnað útboð. Þess vegna er algerlega fráleitt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra hér tala um að útboðið sé vel heppnað í stóru myndinni. Svo fara stjórnarliðar að tala um framkvæmdarhliðina, að útboðið hafi verið vel heppnað, alveg þar til kom að framkvæmdinni. Var þetta þá góð hugmynd alveg þangað til að útboðið hófst? Var útboðið góð hugmynd alveg þangað til það fór af stað? En þetta útboð fór gegn skýrum markmiðum laganna um gagnsæi, skýrum markmiðum laganna um jafnræði, skýrum markmiðum laganna um að efla virka samkeppni og í stað þess að græða sárið með því að hafa gagnsæi og opið ferli sem leiðarljós þá var sárið rifið upp að nýju.