Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held nefnilega að þetta sé dálítið lykilatriði, að ef fella á dóm um það hvort sala eða útboð hafi heppnast vel þá er ekki hægt að fullyrða, þá er ekki hægt að halda því fram að niðurstaðan sé góð þegar traustið er ekkert. Það er ekki hægt að halda því fram að niðurstaðan sé góð þegar eina leiðin fyrir þessa ríkisstjórn til að halda áfram er að hæstv. fjármálaráðherra lofi að selja ekki meir og hinir flokkarnir fá í staðinn að leggja niður Bankasýsluna. Og traust er stórt orð í þessu.

Vinsælasta orð ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu hefur mér fundist vera armslengd. Ég velti því fyrir mér hvort það þurfi ekki hreinlega armslengd frá Sjálfstæðisflokknum við sölu þessara ríkiseigna. Sagan er einfaldlega þannig, dómur sögunnar er þannig að það þurfi armslengd frá Sjálfstæðisflokknum við sölu þessara eigna. Þannig er staðan. Þegar hæstv. fjármálaráðherra stendur hér í þessum sal og talar um stóru myndina, að stóra myndin sé sú að þetta hafi gengið vel vegna þess að það átti að selja banka og bankinn var seldur, ef við horfum ekki lengra en svo þá gekk þetta allt saman vel. Það átti að selja hlut í banka, hluturinn var seldur. Ef við gerum engar aðrar kröfur um þær þá gekk þetta allt saman upp á tíu. En hvað varðar gagnsæi, hvað varðar jafnræði, hvað varðar lykilbreytuna um að efla virka samkeppni þá gekk þetta ekki vel.