Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:48]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við verðum að horfa á þetta þannig að það eru tvær stofnanir að skoða og rannsaka. Annars vegar er það Ríkisendurskoðun sem, eins og ég sagði í ræðu minni, er með þennan stjórnsýslulega þátt. Svo er það það sem hv. þingmaður var að ýja að varðandi einhvern þátt í útboðinu sjálfu. Án þess að ég sé með það alveg á tæru þá finnst mér líklegt að Fjármálaeftirlit Seðlabankans sé nú að skoða þann þátt sem tengist söluaðilunum og þátttöku þeirra í útboðinu. Ég verð bara að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst dapurlegt, það er bara mín einlæga skoðun, að heyra hv. þingmenn tala niður þær stofnanir sem við höfum á vegum þingsins, í þessu tilfelli Ríkisendurskoðun. Þetta er svo sem þekkt aðferð en mér þykir hún dapurleg. Ég held að við eigum að leyfa þessari rannsókn að hafa sinn gang og ítreka það sem ég sagði í ræðunni að það mun ekki standa á mér að ef einhverjir þættir koma upp muni ég styðja frekari rannsókn á málinu á vettvangi þingsins. Varðandi framkvæmdina er það bæði minn skilningur og túlkun að framkvæmdin sé og hafi verið á forræði Bankasýslunnar.