Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar sem hv. þingmaður vitnar til er vísað sérstaklega til 2. mgr. 8. gr. laga um ríkisendurskoðanda. Þetta er gjaldtökuheimild og hljómar svo:

„Þegar sérstaklega stendur á og nauðsynlegt er að ríkisendurskoðandi skoði eða geri úttekt á meðferð ríkisfjár í tilteknu máli eða á tilteknu sviði er honum heimilt að taka gjald fyrir.“

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann greinilega treystir þessu ferli svo vel, hvort hann viti til þess hvaða gjaldtaka verði þarna á ferðinni, hvort Ríkisendurskoðun ætli að taka gjald af fjármálaráðuneytinu, hvort þetta verði gert með sama hætti og þegar t.d. fjárhagur Álftaness var rýndur á grundvelli þessa ákvæðis fyrir löngu með samkomulagi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og hvort hann telji góðan brag á því og hvort það væri í samræmi við sjónarmið um óhæði rannsóknarinnar að fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun myndu gera með sér sérstakan samning. Hann hlýtur, fyrst hann treystir þessu öllu svona vel, að vita í hvaða farvegi þetta mál er, vegna þess að ég hef ekkert séð um þetta og mér finnst þetta orka tvímælis.