Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni fyrir ræðuna sem hann flutti hérna áðan. Mér fannst margt mjög fínt í ræðunni en honum fataðist nú svolítið flugið þegar hann fór að tala um skoðanir stjórnarandstæðinga á því hvernig embætti Ríkisendurskoðunar ræður við rannsóknir almennt. Hér held ég að menn séu að grauta því svolítið saman. Ég ætla að fullyrða það að allir þeir stjórnarandstæðingar sem ég hef heyrt tala treysti Ríkisendurskoðun mætavel en þeir telja kannski ekki að Ríkisendurskoðun sé rétti aðilinn til að rannsaka akkúrat þetta, m.a. út af því sem ég kom inn á fyrr í ræðu, þ.e. að Ríkisendurskoðun er til að mynda ekki að skoða það sem snýr beint að ábyrgð ráðherra. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á hér fyrr að við getum auðvitað verið með einhverja niðurstöðu hjá Ríkisendurskoðun sem bendir til þess að ekkert sé athugavert við þetta, en af því að embættið skoðar ekki allt þá getur eitthvað farið undir radarinn sem hefði annars getað orðið andlag einhverrar frekari skoðunar. Það er eiginlega það sem við erum að tala um.

En ég vil gjarnan fá að spyrja hv. þingmann, af því að hann flutti fína ræðu hérna áðan: Hvað finnst þingmanninum um að varaformaður Framsóknarflokksins, sem á sæti í ráðherranefndinni, viðskiptaráðherrann sjálfur, hafi sagt eftir á að hann hafi mótmælt því þannig að eftir hafi verið tekið að þessi tiltekna leið ætti að fara fram í sölunni og að ráðherra hafi séð það fyrir að þetta yrði klúður og að þeim varnaðarorðum hafi ekki verið komið áleiðis til almennings í aðdraganda sölunnar? Hvað finnst hv. þingmanni um það? Er þar hæstv. viðskiptaráðherra ekki að bregðast skyldum sínum gagnvart þeim sem eiga eignarhlutinn sem til sölu var?