152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:23]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sala Íslandsbanka var í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en í stjórnarsáttmálanum kemur fram að á kjörtímabilinu muni ríkisstjórnin halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk sé uggandi þegar kemur að sölu á ríkisbönkum, sérstaklega þeir sem muna eftir því hvað gerðist á árunum eftir hrun. Síðan eru þó liðin mörg ár með verulegum breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi. Við þá sem eru með efasemdarraddir segi ég að ég trúi því að við séum ekki að fara aftur á sama stað. Starfsumhverfi fjármálamarkaða hefur verið gjörbylt frá fjármálakreppunni 2008 til að koma í veg fyrir að við endum í sömu holunni aftur. En þetta þarf að vera í sífelldri endurskoðun og við þurfum alltaf að skoða hvað hægt er að gera til þess að gera enn þá betur. Hvað kaupendur varðar eru fagfjárfestar, eins og margoft hefur komið fram, skilgreindir þannig að þeir þurfa að standast hæfnismat sem byggist á ítarlegri greiningu og gagnaöflun og einnig þurfa fagfjárfestar að hafa gott orðspor, búa við sterka fjárhagsstöðu. Mun meiri kröfur eru gerðar til þeirra sem kaupa hlutinn nú en voru gerðar í fyrri einkavæðingu. Svo má hins vegar spyrja hvort allir þessir fagfjárfestar uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til fagfjárfesta og þær skilgreiningar sem um þá gilda og það er til skoðanir.

Eitt af markmiðum sölunnar var að minnka skuldsetningu. Við erum að koma út úr heimsfaraldri. Með góðri stöðu ríkissjóðs náðum við að takast á við stöðuna og þökk sé góðri efnahagsstjórn undanfarin ár stöndum við betur en margir þorðu að vona. Því höfum við aukið svigrúm til samfélagslegra, arðbærra fjárfestinga.

Um nýafstaðna sölu á hlut í Íslandsbanka eru svo sannarlega ákveðin álitaefni sem mikilvægt er að við fáum svör við. Ég tek undir orð hæstv. forsætisráðherra þegar hún talar um að við þurfum að komast til botns í hvernig framkvæmdin var og ég styð þann farveg sem málið hefur verið sett í. Mig langar að trúa því að þeir aðilar sem hafa málið til skoðunar hjá þeim stofnunum sem um ræðir séu að vinna að málinu og skoðun þess af heilindum eins og allar aðrar stofnanir Alþingis. Ég trúi því að við séum með færa og hæfa einstaklinga til að taka þessi mál til skoðunar, einnig þetta mál.

Ríkisendurskoðandi starfar lögum samkvæmt á vegum Alþingis. Hann er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu. Hann getur m.a. krafist allra þeirra upplýsinga og gagna sem hann þarfnast og leitað aðstoðar lögreglu ef aðili neitar að afhenda þær upplýsingar sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Í greinargerð með frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir kemur fram, með leyfi forseta:

„Rétt er að árétta að skipun rannsóknarnefndar er úrræði sem ber einungis að nota ef einsýnt er að ekki er unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði. Úrræðið er sérúrræði og mikilvægt að á það sé litið sem slíkt og að til þess sé ekki gripið nema nauðsynlegt sé.“

Þar að auki gera lög ráð fyrir að forseti Alþingis velji formann slíkrar rannsóknarnefndar og afmarki umboð hennar hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Því mætti í rauninni leiða líkur að því að afskipti stjórnmálanna væru meiri af rannsóknarnefnd Alþingis en af Ríkisendurskoðun. En hávær krafa hefur verið frá stjórnarandstöðunni um að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluna á Íslandsbanka. Ég ítreka að ég ber fullt traust til þeirra sem hafa málið til skoðunar núna og ég tel að það sé, eins og hefur komið fram áður, eðlileg byrjun á þessu máli. Við fengum bankann í fangið á sínum tíma og við unnum úr þeim vandamálum sem voru til staðar og lögðum mikla áherslu á að aðskilja hið pólitíska vald frá ákvarðanatöku á fjármálamarkaði. Það er enn skýr stefna ríkisstjórnarinnar að það sé þarna ákveðinn aðskilnaður og að lært verði af því sem sagan hefur verið að kenna okkur. Mikilvægt er að allar staðreyndir komi upp á yfirborðið svo hægt sé að halda áfram með umræðuna á upplýstum grunni. Við megum ekki gleyma því grundvallarmarkmiði sem lagt var upp með í upphafi við ákvörðun um söluna, en það er að þeir fjármunir sem fengjust af sölunni yrðu settir í öfluga innviðauppbyggingu hér á landi. Ég tel að við getum með því tryggt öfluga endurreisn, t.d. eftir Covid, og að sterkir innviðir hérlendis verði enn betri.

Við höfum öll sömu markmiðin og þau eru að við búum hér til traust samfélag, að við séum með trausta stjórnsýslu og að við séum með traust á Alþingi. Við erum öll sammála um það. Við verðum að hafa öfluga innviði í forgrunni fyrir allt fólkið í þessu landi.

Virðulegur forseti. Að lokum langar mig að ítreka enn frekar að ég tel gífurlega mikilvægt að það sé allt uppi á borðum þegar kemur að málum eins og þessum og að framkvæmdin sé yfir allan vafa hafin. Þess vegna þurfum við að skoða hvað gerðist og við þurfum að leyfa málinu að vera í þeim farvegi sem það er í dag.