Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:10]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að nefna að Fjármálaeftirlit Seðlabankans er ekki á nokkurn hátt að skoða stjórnsýslu sölumeðferðar og athugun hennar lýtur hvorki að Bankasýslunni né fjármálaráðuneytinu, þannig að við getum strax bara gleymt því.

Varðandi Ríkisendurskoðunarþáttinn þá er það eitthvað sem ég gerði tilraun til að fara yfir í ræðu en tíminn hljóp frá mér. En það eru fimm veigamikil atriði sem sem ég hugsa að ég þurfi að nýta seinni ræðu mína hérna í, þær fimm mínútur, til að fara yfir til að klára þann þátt.

Ég vil segja að í þessu ferli öllu, af því að stundum er talað um armslengd o.s.frv., eru vissulega ákveðin armslengdarsjónarmið skrifuð inn í lög um Bankasýslu ríkisins, en í lögum sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er ráðherra í raun yfir og allt um kring í ferlinu. Það er gert ráð fyrir að hann vaki yfir söluferlinu á öllum stigum þess. Hann tekur ákvörðun um hvort sölumeðferð skuli hafin, hvort gengið sé að tilboðum, hann leggur línurnar um söluaðferð og markmið og undirritar samningana fyrir hönd ríkisins. Í ljósi þessa finnst mér mjög mikilvægt að núna þegar við gerum þetta upp og skoðum þetta í þaula þá verði fókusinn svolítið á þætti ráðherra. Við þurfum að fá úr því skorið hvort ráðherra hafi lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðunum sínum, bæði 18. mars og 22. mars, og hvort hann hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni og bæði skráðum og óskráðum reglum. Þá ekki bara lagafyrirmælum í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjunum heldur líka að óskráðum reglum stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar. Þetta er eitthvað sem ég held að þurfi að skoða mjög rækilega.