Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðuna og hef áhuga á að eiga við hana orðastað í ljósi sögu hennar hvað varðar þessa lagasetningu, af því að ég er henni svo einlæglega sammála um hversu skýr hún er. Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að skoða þessi lög kom það mér á óvart að það eru í reynd fimm efnisgreinar sem ramma þetta algerlega inn; til hvers er ætlast, hver ábyrgð ráðherrans er, sem er afar skýr af lagaákvæðunum sjálfum. Í 1. gr. er fjallað um sölu, í 2. gr. um ákvörðun um sölumeðferð, í 3. gr. um meginreglurnar sem þar um gilda, í 4. gr. um sölumeðferðina og í 5. gr. um skýrslugjöfina. Mér finnst satt best að segja með ólíkindum að við séum hér í þingsal að rökræða mikið um það hvort ábyrgð ráðherrans sé einhver á þessu því að það er ekki oft sem lagasetning er jafn skýr og þarna er um að ákvörðunin er ráðherrans hvað varðar þessi atriði.

Ég hef talað um það fyrr í dag að ég er hlynnt því að ríkið losi um þennan eignarhlut. Þegar maður skoðar greinargerðina, forsöguna, sér maður að eignarhaldið stafaði ekki af markvissri stefnu stjórnvalda heldur var afleiðing af hörmulega ástandi og ekki voru taldar forsendur fyrir því að ríkið yrði eigandi til langframa. En ég hef áhyggjur af þessu núna vegna þess að traustið er ekkert, eins og hv. þingmaður fór yfir. 83% landsmanna telja að þessi sala hafi ekki heppnast vel. (Forseti hringir.) Ég vildi í raun bara koma upp til að taka undir það með hv. þingmanni að lagasetningin (Forseti hringir.) er afar skýr og það er ábyrgð ráðherra líka.