Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Það er gaman að fá að komast að á öðrum degi þessarar sérstöku umræðu eða skýrslugjafar fjármálaráðherra um sölu á Íslandsbanka. Ég ætla að byrja á því að segja það sem ég hef svo sem sagt áður, að mér finnst mikilvægt að það komi fram að ég er ofboðslega hlynnt því að losa um eignarhald ríkisins í bankanum. Það er alls ekki svo að allir í þessum sal séu á þeirri skoðun. Sumir hafa komið hreint fram með það í dag og lýst því yfir en mjög margir aðrir eru ofboðslega tvístígandi og hafa verið það bæði í því ferli sem við vorum að ljúka núna og líka í fyrra ferlinu. Ég held hreinlega að það séu ekkert ofboðslega margir í þessum sal sem standa með því að rétt sé að losa um þetta eignarhald og að það sé réttara að einkaaðilar reki bankana en ríkið.

Ég er búin að fara yfir það í andsvari hér fyrr í kvöld hverjir væru einmitt kostirnir við að losa um þetta eignarhald og þá vil ég minna á það að núna höfum við fengið 108 milljarða inn í ríkissjóð, 108 milljarða fyrir þennan hlut í bankanum, og enn eigum við 42,5% í bankanum. Staða ríkissjóðs er vissulega sterk að hafa losað um þetta fé og við getum notað það í að lækka skuldir en eigum enn þá langstærsta hlutann í bankanum. Ég er þannig sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun að selja Íslandsbanka. Hér í þessum sal kemur oft umræðan um bankahrunið og hvað gerðist við síðustu einkavæðingu — ég get ofboðslega vel skilið það þegar almenningur þarna úti veltir því fyrir sér og fyllist ákveðinni hræðslu. En við sem sitjum í þessum sal eigum að vita að regluumhverfið í kringum banka er gjörbreytt frá því sem það var. Það hafa um 30 frumvörp farið í gegnum þingið frá bankahruni þannig að öll umgjörð um bankana er allt önnur í dag en hún var þá.

Að þessu sögðu voru mínar helstu vangaveltur og spurningar í fjárlaganefnd, þegar kom að þessum hluta útboðsins, annars vegar hversu stóran hlut lífeyrissjóðirnir væru líklegir til að taka af þessum hluta og hversu stórir þeir væru á bankamarkaði yfir höfuð, svo og auðvitað á öðrum lánamarkaði, verandi með stóran hluta af húsnæðismarkaðnum. Það kemur einmitt inn á samkeppnissjónarmið sem hafa aðeins verið rædd hér í dag og var svolítið stór þáttur í umræðunni okkar í fjárlaganefnd, hvaða áhrif þetta hefði á samkeppnisumhverfið. Með öðrum orðum er ég að segja að eins og ég tel að lífeyrissjóðirnir geti verið góðir fjárfestar þá hefur það líka þessa galla. Við erum lítið samfélag og þeir eru svolítið alltumlykjandi.

Hin vangavelta mín snerist um stríð í Evrópu og hvort það væri að hafa einhver áhrif. Ég fékk ágæt svör við vangaveltum mínum og spurningum. Ég hef sagt það hér í ræðu að ég stóð í þeirri meiningu að þessi aðferð, þessi útboðsaðferð sem var lýst, væri fyrst og fremst til þess fallin að ná í stærri fjárfesta sem væru þá líklegri til að vera inni í bankanum í lengri tíma. Það var aldrei skrifað inn að þeir sem kæmu inn ættu að vera inni í einhvern ákveðinn tíma og það kom aldrei fyrirspurn um það, að ég best veit, og ég er ekkert viss um að það sé endilega góð hugmynd. En það væri sem sagt tryggingin að um leið og þú ert að setja mikla fjármuni inn í banka þá sé ólíklegt að þú farir strax daginn eftir eða fáum dögum seinna því að það myndi hafa áhrif á verðið. Ég hef líka lýst því í ræðu að þegar ég fer að lesa öll gögnin mín þá er ekkert sem kemur fram um það. Það er bara ofboðslega skýrt hvert markmiðið með þessari sölu var. Það var að minnka áhættu ríkisins af stórum eignarhlut í fjármálakerfinu. Það var að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði. Það var að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika fyrir einstaklinga og fagfjárfesta og ekki síst að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga. Þetta hefur í öllum meginatriðum tekist mjög vel.

En er ég fullkomlega sátt? Nei, ég er það ekki. Þegar ég las yfir listann og sá að fjöldi þeirra sem höfðu keypt var með mjög litlar fjárhæðir, fjárhæðir sem mér finnst bara eðlilegt að viðkomandi hefði keypt fyrir á mörkuðunum daginn eftir þegar þeir opnuðu en væru ekki þátttakendur í þessu lokaða útboði fyrir hæfa fjárfesta. Þess vegna velti ég fyrir mér af hverju við vorum ekki með einhverja lágmarksfjárhæð. Ef við hefðum verið með 50 til 100 milljónir þá værum við alla vega ekki að eyða orku okkar í þá umræðu sem hefur svolítið verið á síðustu dögum, því að hún snýst um þessa aðila sem eiga þarna einhver örfá prósent eða undir 1% í bankanum.

Ég viðurkenni að sú umræða kom ekki upp og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég er alveg ofboðslega svekkt yfir því að Bankasýsla ríkisins mætti ekki á opna fundinn hjá okkur í fjárlaganefnd í morgun eins og boðað hafði verið fyrir tveimur eða þremur vikum. Þetta er sú spurning sem ég hef til Bankasýslunnar: Hvaða umræða átti sér stað innan Bankasýslunnar um þörf á því að setja einhverja lágmarksfjárhæð eða ástæður fyrir því að sú leið var ekki farin? Það kann vel að vera að einmitt einhverjir þarna úti sem þekkja þennan markað betur en ég geti haft við því góð og gild svör, en ég sé það ekki og ég þarf að fá svar við þeirri spurningu.

Bankasýslan hefur í öllum sínum gögnum og svörum sagt að ekki hafi verið handvalið inn í þetta ferli eins og ásakanir hafa verið uppi um og ýmsar sögur, þ.e. að allir sem voru hæfir og uppfylltu þessi skilyrði hafi getað tekið þátt í þessu útboði. Þetta er eitt af því sem við þurfum líka að spyrja að og fá algjöra fullvissu fyrir vegna þess að það er algerlega óþolandi að eins mikilvægt ferli og við vorum í hér, að losa um þennan eignarhlut, hafi valdið ákveðnum trúverðugleikabresti. Það hafa verið alls konar sögur í gangi í samfélaginu um það hvernig hinn og þessi hafi komist inn í útboðið, ekki verið hæfur, átt vini og vandamenn sem voru að selja o.s.frv. Við þekkjum allar þessar sögur. Við þurfum að fá skýrar upplýsingar frá Bankasýslu ríkisins um að öll þau skilyrði sem sett voru þarna fram hafi verið uppfyllt. Ef það eru einhverjar brotalamir á því þá þurfum við að velta við öllum steinum því að við eigum ekki að sætta okkur við að eitthvað misfarist í jafn mikilvægu máli og því sem hér um ræðir.

Ég ítreka enn og aftur: Við erum með útistandandi spurningar til Bankasýslunnar. Bankasýslan þarf að mæta á fund fjárlaganefndar þar sem við getum farið yfir þetta og þeir þurfa að sannfæra okkur um að þeir hafi fylgt öllum þeim skilmálum sem settir voru fram. Ég heyri það í fjölmiðlum að meira að segja forstjóri Bankasýslunnar hefur lýst því yfir að það sé mjög undarlegt t.d. ef seljendurnir sjálfir, söluaðilarnir, hafi verið að kaupa. Ég viðurkenni að ég fer algjörlega yfir um þegar ég heyri slíkar sögur og mér skilst að Bankasýslan sé einmitt að láta skoða það sín megin og muni þá ekki uppfylla greiðslur til aðila sem ekki hafa fylgt reglum þar um. Það er því alveg á hreinu að við verðum að velta við þessum steinum. Við verðum að fá svör við þessum spurningum okkar. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að Ríkisendurskoðun klári endurskoðun sína og það mjög fljótt þannig að við hér í þinginu fáum þær upplýsingar. Hér hefur mikil umræða verið um rannsóknarnefnd Alþingis. Ég hef sagt það að ég mun ekki vera á móti því ef eitthvað í þessum skoðunum sem við höfum þegar sett af stað gefur tilefni til þess að setja á rannsóknarnefnd. En mér finnst mikilvægara að fá svörin fyrr, sem fyrst. Auðvitað áttu margar af þeim spurningum sem við erum að beina til Bankasýslunnar að liggja fyrir þegar útboðið var framkvæmt og það er því óskiljanlegt að þeir hafi ekki getað komið í dag og svarað þessum spurningum. En þeim spurningum sem hafa vaknað í kjölfarið þarf að svara strax. Við þurfum að fá Ríkisendurskoðun til að fara yfir þessa þætti sem nefndir hafa verið sérstaklega og þegar því er lokið getum við vonandi komist að þeirri niðurstöðu að í öllum meginatriðum hafi þetta gengið vel og getum haldið áfram að losa um eignarhlut okkar í Íslandsbanka.