Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þetta hvað hæstv. fjármálaráðherra varðar. Ég veit að hann er í húsi og ég er sannfærð um að hann er að fylgjast vel með þessum umræðum. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvort hann einmitt rammi ekki inn þessa umræðu. Eitt af því sem ég saknaði í ræðu hæstv. ráðherra, það var reyndar eitt og annað sem ég saknaði, er risastórt atriði sem eru samkeppnismálin og hvernig samkeppnisþátturinn hefur verið tryggður í þessari sölu. Ráðherra fór ekkert yfir þann þátt, ekki neitt. Fyrir mig sem talsmann þess að reyna að ýta út fákeppni á fjármálamarkaði leikur þessi sala lykilhlutverk í því að reyna að stuðla að aukinni samkeppni. Ég hefði viljað eiga orðastað við hæstv. ráðherra um nákvæmlega þann þátt, þótt það séu eðlilega mjög margir aðrir þættir sem þurfi að fara betur yfir. Ég saknaði þess og vonast því til þess í þessari mikilvægu umræðu að hæstv. ráðherra komi hingað í þingsalinn (Forseti hringir.) og fari m.a. yfir þann þátt málsins.