Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:15]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vildi líka fá að nefna þetta af því að það tókst vel til hér hjá okkur í dag og ég held að þetta hafi skilað miklu, bæði til stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og auðvitað líka til fólksins sem er þarna úti og hefur verið að fylgjast með. Þeir hafa verið býsna margir, enda er mikill áhugi á þessu máli eins og við vitum. Þetta hefur því allt verið mjög gott.

Ég vildi fá að inna hæstv. forseta þings eftir því hvort það sé ekki alveg öruggt að framhald verði á þessum umræðum á morgun með forsætisráðherra og hvort það sé komið endanlega í ljós hvernig það verður og svo aftur hvort við megum ekki eiga von á því að hæstv. viðskiptaráðherra komi hér fyrir þingið. Þá er ég ekki að tala um óundirbúinn fyrirspurnatíma heldur aðeins ítarlegri umræðu því að eins og svo glögglega hefur komið hér fram í hverri ræðunni á fætur annarri þá finnst þingheimi það augljóslega skipta verulegu máli að hæstv. viðskiptaráðherra útskýri betur aðkomu sína að þeirri ákvörðun sem var tekin um að fara af stað í þessa sölu, af hverju sjónarmið hennar varð t.d. undir í ráðherranefndinni og þar fram eftir götunum. Þetta er bara heljarinnaratriði sem við þurfum að fá á hreint í umfjöllun þingsins um bankasöluna nú í vikunni.