Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:22]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp aftur til að botna vísu sem ég byrjaði á áðan en náði ekki alveg að klára. Hún varðar þetta þinglega eftirlit með því sem átti sér stað með þessari bankasölu. Ég leyfi mér að gagnrýna þá beiðni sem fjármálaráðuneytið setti fram gagnvart Ríkisendurskoðun. Ég tel að bæði tilefni og afmörkun þeirrar athugunar orki tvímælis. Annars vegar af þeirri ástæðu að í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld eigi frumkvæði að athugunum Ríkisendurskoðunar. Það er ekki gert ráð fyrir því í lögunum að stjórnvöld geti óskað sérstaklega eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknu máli og enn síður að Ríkisendurskoðun taki slíkar beiðnir til greina, líkt og virðist hafa verið gert í þessu tilviki og það samdægurs meira að segja og án þess að fyrir liggi afmörkun og áætlun um það hvernig athuguninni skuli háttað. Svo veltir maður því auðvitað fyrir sér hvers vegna sérstaklega er vísað til gjaldtökuheimildar í tilkynningu Ríkisendurskoðunar. Þetta er allt saman eitthvað sem verður að skýra og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni fá upplýsingar um þetta. Við verðum að hafa í huga að ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og fer í umboði Alþingis með eftirlit með fjárreiðum stjórnvalda. Það samrýmist mjög illa þessu hlutverki að stjórnvöld sjálf, hinir eftirlitsskyldu aðilar sem heyra undir aðra grein ríkisvaldsins en Ríkisendurskoðun, séu að leitast við að hafa áhrif á það hvort og þá hvernig og á hvaða vettvangi Alþingi og stofnanir þess rækja þetta stjórnarskrárbundna eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hinn þátturinn sem ég fór yfir, og mér finnst orka tvímælis, varðar það að eftirlit Ríkisendurskoðunar gagnvart stjórnvöldum í umboði Alþingis lýtur samkvæmt 43. gr. stjórnarskrárinnar og samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/2016 að fjárreiðum ríkisins en ekki því hvort starfsemi stjórnvalda fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Slíkt eftirlit er á höndum umboðsmanns Alþingis. Eins og athugun Ríkisendurskoðunar er afmörkuð í þessari tilkynningu þá sé ég ekki alveg hvernig efni hennar geti fallið undir lögbundið starfssvið stofnunarinnar. Ég vona að við fáum kannski betri skýringar á þessu án þess þó að maður vilji skipta sér á nokkurn hátt af því hvernig Ríkisendurskoðun hagar störfum sínum.

Annar þáttur sem ég held að við þurfum aðeins að tala um hérna er sá að athugun ríkisendurskoðanda fer fram og hófst í raun í skugga pólitískra átaka hérna í þingsal um það hvort og þá hvenær skipa ætti óháða rannsóknarnefnd. Það bætir ekki úr skák að nú er uppi sú staða að það er enginn starfandi ríkisendurskoðandi sem hefur hlotið kosningu Alþingis og ofan á það bætist líka að sá aðili sem er í dag starfandi ríkisendurskoðandi og stýrir stofnuninni hefur einmitt sótt um þessa stöðu. Það kom í ljós í dag. Nú stendur Alþingi frammi fyrir því að kjósa sér nýjan ríkisendurskoðanda eða kjósa þennan aðila á sama tíma og úttektarvinna stofnunarinnar um þetta hápólitíska og viðkvæma mál stendur yfir. Ég held að það sé miklu æskilegra að það sé stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem í rauninni tekur sér forræði þegar kemur að þinglegu eftirliti með þessu máli. Ég held að spurningarnar sem vakna séu margar, eins og ég hef nefnt, í rauninni þannig að það væri miklu eðlilegra að umboðsmaður Alþingis tæki þær til athugunar, séu þess eðlis að það sé langeðlilegast að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd til að kanna þessi atriði.