Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:20]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Nú er komið á fimmta ár síðan skýrsla fjölmiðlanefndarinnar undir forystu Björgvins Guðmundssonar var lögð fram og það hefur í sjálfu sér lítið sem ekkert gerst til að bregðast við þeim sjónarmiðum sem þar voru fram sett. Eflaust má segja að að einhverju marki sé þetta óþolinmæði þess sem hér stendur að vilja ýta málum áfram með þessum hætti. En ég sæi alveg fyrir mér t.d. að þessi vinna, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt hér í salnum, hefði einhverja tengingu við það að koma til framkvæmda að aflokinni heildarendurskoðun á grundvelli til að mynda fjölmiðlaskýrslunnar frá 2018. En það breytir því ekki að við verðum að komast af stað í þessu verki. Og það að komin sé svipa á hópinn sem snýr að breyttum úthlutunarreglum nefskattsins getur verið ágætishvati til að fá aðila að borðinu, bæði einkamiðla, ríkisfjölmiðilinn, stjórnmálin, ráðuneytið og ráðherrann. Ég held að þetta gæti að mörgu leyti allt unnist býsna vel saman.