Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:21]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir þetta um margt sniðug tillaga, umhugsunarverð alla vega. Samlíkingin við sóknargjaldið finnst mér nokkuð snjöll. Þarna er komið ákveðið fordæmi fyrir svona fyrirkomulagi, þó að ég sé persónulega með ýmsar meiningar um sóknargjaldið og myndi frekar vilja að það væri innheimt sem félagsgjald frekar en að ríkið væri milliliður — en það er allt önnur umræða í sjálfu sér. En af því að hv. þm. Bergþór Ólason sá fyrir sér að með þessu fyrirkomulagi myndu tekjur RÚV lækka þá velti ég fyrir mér áhrifunum á þá fjölmiðlastyrki sem eru fyrir, sem hafa verið innleiddir í viðleitni til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og bregðast við í rauninni mjög breyttu og krefjandi rekstrarumhverfi þeirra, t.d. með tilkomu samfélagsmiðla. Það er útfærsla sem ég er persónulega ekkert rosalega hrifinn af, hvernig það dreifist á milli fjölmiðla og hvaða forsendur eru notaðar þar. Þar finnst mér stærri fjölmiðlar vera að fá hlutfallslega meira en aðrir. Mögulega gæti þessi útfærsla kannski tryggt betri dreifingu hvað varðar raunverulegan áhuga fólks, almennings, á að styrkja fjölmiðla. Þannig að ég vil bara spyrja hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að ef af þessu yrði þá yrðu þessi framlög lækkuð eða jafnvel afnumin alveg samhliða.