Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram og þessa tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Bergþór Ólason fór yfir áðan. Eins og ég nefndi í andsvari áðan þá hefði ég nú fyrir einhverjum árum ekki endilega verið neitt sérstaklega hrifinn af þessari tillögu. En ég er orðinn mjög harður á þeirri skoðun í dag að við þurfum að fanga allar tillögur sem þarna úti eru um það hvernig hægt er að breyta og bæta íslenskt fjölmiðlaumhverfi, rekstrarumhverfi einkarekinna miðla og þeim grunni sem Ríkisútvarpið stendur á, vegna þess að það er mikið samspil þarna á milli. Við þurfum að fanga allar þessar tillögur og fara í svolítið heildstæða vinnu á því hvernig best er að haga þessum málum til framtíðar. Ég er alveg sammála því sem kom fram hér hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni að þótt þessi tillaga gangi ekki út á það, þá gæti hún sannarlega verið hvatning til þess að fara fyrr í þessa vinnu. Ég skynja það a.m.k. þannig að það sé ákveðinn vilji hjá hæstv. menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, til að fara í einhvers konar svona skoðun, skoða þá sérstaklega einkareknu miðlana og jafnvel að skipa starfshóp til að skoða umhverfið heildstætt. En það er hins vegar einhvers staðar fyrirstaða og ég held að hún liggi nú meira hjá öðrum flokki, sem er Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki það að úr þeim flokki hafa reyndar komið margar ágætishugmyndir sem hægt væri að nýta í þessa vinnu. Mig langar að nefna það sem hv. þm. Óli Björn Kárason hefur verið að tala um varðandi eitt og annað sem hægt er að gera, bara svo ég nefni hans nafn af því að hann hefur mikið látið sig þessi mál varða.

Sjálfur lagði ég fram á síðasta þingi tillögu til þingsályktunar um heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla þar sem nákvæmlega þetta allt var tiltekið. Fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi og annars staðar hangir auðvitað saman, samspil íslenskra miðla við erlenda samfélagsmiðla og streymisveitur er orðið mikið og þótt þetta hafi verið kortlagt fyrir einhverjum árum og örugglega einhverjum árum þar á undan líka þá er það nú bara þannig að á þessum fimm eða sex árum sem liðin eru frá síðustu svona skoðun, þar sem margar ágætar tillögur komu fram, hefur heilmikið breyst. Rekstrarumhverfi fjölmiðla á þessum stutta tíma hefur breyst til hins verra, bara heilmikið til hins verra. Það hefur síðan leitt til þess að fjölmiðlafólki, fréttafólki á Íslandi hefur fækkað mikið sem aftur veikir undirstöður lýðræðisins.

Það sem ég ætla að nefna hér í umræðu um þetta mál, fyrir utan að benda á að þetta er svo sannarlega ein tillaga í púkkið, er að staða Ríkisútvarpsins þarf ekkert að vera óumbreytanleg um aldur og ævi. Ríkisútvarpið þarf að geta starfað við hlið einkarekinna miðla án þess að það sé upplifun allra og tilfinning og jafnvel raunveruleiki að tilvist Ríkisútvarpsins hefti framgang einkarekinna miðla. Það er ekki fyrirkomulag sem við getum búið við til lengri tíma og það eru öll rök sem hníga að því að við þurfum að skoða þetta saman.

Það sem ég vildi nefna líka er að til þess að allt þetta megi verða þá finnst mér að við þurfum að hafa eina grundvallarforsendu algerlega í heiðri og það er grundvallarforsenda sem hefur birst á Norðurlöndunum og í löndunum í kringum okkur, lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, sem er sú að fjölmiðlarekstur er ekki eins og hver önnur atvinnugrein. Fjölmiðlar og fréttaöflun og fréttamiðlun, menningarmiðlun og annað sem gerist á vettvangi fjölmiðla er ekki hægt að leggja að jöfnu við rekstur á kjörbúð eða verkstæði, bílaverkstæði eða einhverri annarri atvinnustarfsemi. Þetta er ofureinfaldlega, þótt það sé alltaf rosalega hástemmt og hátimbrað að segja það, algjör grundvöllur þess að við getum búið í lýðræðislegu samfélagi. Þess vegna kalla ég mjög eftir því að það verði farið í þessa vinnu og útgangspunkturinn verði eins og á Norðurlöndunum, að við skilgreinum það að fjölmiðlar séu hornsteinn lýðræðis og að það sé ekkert athugavert við það að hér sé rekinn ríkismiðill, þá í meiri sátt við einkarekna miðla heldur en núna, og það sé ekkert athugavert við það að það sé eftir atvikum einhvers konar styrkjakerfi í tengslum við einkarekna miðla líka. Við hljótum hins vegar alltaf að reyna að byggja upp þessa hugsun og þessi kerfi þannig að þetta verði sem mest sjálfbært. Við hljótum t.d. alltaf að eiga að hafa það sem útgangspunkt þegar við erum að ræða um ríkisstyrki eða styrkjaumhverfi einkarekinna miðla, hvernig við getum haft umhverfið að öðru leyti þannig að þessir styrkir verði sem lægstir. Það á ekki að vera sjálfstætt markmið að styrkja. Við gerum það miklu frekar af einhvers konar nauðsyn.

Ég ætlaði bara að koma hingað upp og fagna því að þessi tillaga væri fram komin og fá hana inn í þetta púkk. Mig langar líka að segja hér, af því að menn eru að tala um öryggishlutverk Ríkisútvarpsins, að það er ekki alveg þannig að það sé búið að þynna það hlutverk út í ekki neitt þótt það hafi vissulega breyst mikið, einfaldlega vegna breyttrar fjölmiðlunar og vegna þess hvernig umhverfið allt er orðið, miklu síkvikara og fljótara og allt viðbragð öðruvísi en var fyrir einhverjum árum síðan. En Ríkisútvarpið er enn þá partur af almannavarnakerfinu og gegnir þar ákveðnu hlutverki, lögbundnu hlutverki, sem við getum ekki á neinn hátt gert lítið úr. Það eru alls konar svona hlutir sem við þurfum að skoða í þessu samhliða.

Við erum með þessa gömlu skýrslu frá því fyrir fimm eða sex árum síðan og ég er eiginlega svolítið hissa á því að margar af þeim hugmyndum sem þar komu fram skuli ekki enn þá vera komnar í framkvæmd því að þótt ég sé að kalla eftir einhvers konar heildarendurskoðun á þessu öllu saman þá er engu að síður svo að það er vel hægt án þeirrar heildarendurskoðunar að til að mynda breyta reglum um auglýsingar þannig að það sé hægt að heimila t.d. áfengisauglýsingar, sem við fáum til okkar hvort sem er með öðrum hætti en í gegnum íslenska miðla.

Síðan er annað sem má vel velta vöngum yfir þegar við erum að tala um til að mynda styrki til einkarekinna miðla: Hvers konar fjölmiðlun viljum við styrkja? Þetta er svolítið viðkvæm umræða. Við vorum að ræða hérna mikið um N4 fyrir áramótin og það er fjölmiðill sem fólki þótti feikilega vænt um og skilaði miklu og góðu verki. Má setja t.d. spurningarmerki við það að verið sé að styrkja fjölmiðla sem eru með mjög mikið af kostuðu efni, þar sem hagsmunaaðilar geta keypt sig inn í dagskrá? Allar þessar spurningar þurfa að vera uppi líka. Eiga hagsmunaaðilar sem reka blöð — ég ætla að nefna Bændablaðið, nota bene frábær fjölmiðill, er eðlilegt að það sé innan styrkjakerfis? Er eðlilegt að innan styrkjakerfis séu minni miðlar sem eru ekki með daglega fréttaöflun eða mikla lýðræðislega umræðu en skipta samt sem áður máli í byggðarlögum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar? Við þurfum að taka þessa umræðu alla og hafa hana undir.

En af því að við erum að tala um þessa tillögu sem hér liggur fyrir, þá langar mig að gjalda varhuga við því að það sé einhver útgangspunktur eða markmið í sjálfu sér að einkareknir miðlar verði sterkari ef Ríkisútvarpið veikist. Það held ég að sé ekki. Heildarmarkmið okkar hlýtur auðvitað að vera að fjölmiðlaumhverfið í heild sé sterkara og það gerum við ekki með því að veikja einn anga í því skyni að styrkja einhvern annan. Það er ekki rétt leið.

Ég kalla eftir því að boðaður starfshópur, boðaður hópur sem á að fara í þessa heildarendurskoðun, fari að líta dagsins ljós. Ég veit að hagsmunaaðilar í greininni, félög innan fjölmiðlageirans, telja að það sé orðinn of mikill dráttur á því. Ég hvet þingmenn alla til góðra verka í þessu og fagna því að þessi tillaga sé komin sem eitt púsluspilið inn í þessa stóru mynd sem við þurfum að skapa hér á íslenskum fjölmiðlamarkaði.