Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:55]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á við upphaf ræðu sinnar var um þau sjónarmið sem eru uppi varðandi gjaldtöku eða skattheimtu af erlendum streymisveitum, erlendum miðlum sem soga til sín töluvert af auglýsingatekjum á íslenska markaðnum. Hver er skoðun hv. þingmanns á því hvað veldur í rauninni? Þegar míkrafónn er rekinn í andlitið á hæstv. ráðherrum þá þykir mér tónninn alltaf að vera sá að þetta sé sanngirnismál sem þurfi að ganga til og finna lausn á og nú eru komin fordæmi, ég held ég muni að Danmörk og Holland séu a.m.k. lögð af stað í þessa vegferð. Hver er skoðun hv. þingmanns á því hvað veldur því að við séum ekki komin lengra í þeim efnum heldur en raunin er? Þetta er auðvitað gríðarlegt hagsmunamál, bæði fyrir innlendan fjölmiðlarekstur, ríkissjóð og alla samkeppnisstöðu og líka bara svona sanngirnismál þannig að innlendir miðlar standi að einhverju marki, ekki jafnfætis endilega en séu nær því að vera í sambærilegri stöðu og þær streymisveitur sem sinna auglýsingaþjónustu án þess að vera í raun hluti af þessu innlenda samfélagi og innlenda regluverki sem skilur eftir sig skatttekjur og þar fram eftir götunum. Hvað er það sem veldur því að ríkisstjórnin hefur ekki gengið hraðar til þessa verks en raunin er?