Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[13:10]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Mig langar við lok þessarar umræðu að þakka þeim sem tóku þátt í henni. Hún er búin að vera virkilega góð og ég er bjartsýnni núna en ég hef verið áður um að það sé vilji til þess að taka rekstrarumhverfi fjölmiðla í heild sinni og sérstaklega einkareknu miðlanna til endurskoðunar. Hér hafa tekið þátt bæði fulltrúar úr stjórn og stjórnarandstöðu og ég er bara virkilega ánægður með hvernig þessi umræða hefur þróast og ber þá von í brjósti að vinnan í allsherjar- og menntamálanefnd verði til bóta í þessum efnum og stóra myndin sem dragist upp sé sú að það verði ekki lengur við svo búið að rekstrarumhverfið verði með óbreyttum hætti. Við þurfum að komast út úr þessu sem ég hef kallað árleg krampakennd viðbrögð við mjög alvarlegri stöðu einkareknu miðlanna, bæta rekstrarumhverfið, hvort sem það verður gert með því að horfa til tillagna sem komu fram í skýrslunni frá 2018 og til viðbótar að horfa til þeirra breytinga sem hafa orðið á þessum markaði síðan þá. En í öllu falli held ég að þetta gæti orðið ágætisupptaktur að því að færa rekstrarumhverfi einkareknu miðlanna til betri vegar.