Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:12]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020, og hef gefið þessu þingmáli heitið samfélagsvegir. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Birgir Þórarinsson, Bryndís Haraldsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Frumvarp þetta er ákaflega einfalt og er einföld breyting á gildandi lögum um samvinnuverkefni í samgönguframkvæmdum. Segir svo í 1. gr. þessa frumvarps, með leyfi forseta, að við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

„Sveitarfélagi er heimilt að standa fyrir stofnun félags um tiltekna vegaframkvæmd og rekstur með einkaaðilum eða félagasamtökum“ — þ.e. stofna samgöngufélag um tiltekna framkvæmd, um rekstur og byggingu — „Félagið getur fengið framlag af samgönguáætlun, að hluta eða öllu leyti, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum.“

Síðan eru talin upp í fjórum liðum ákveðin skilyrði sem slíkt félag þyrfti að uppfylla en meginmálið er það að á forsendum sveitarfélags, sem fer þá með skipulagsvald á viðkomandi svæði, skal vera heimilt að gera samninga um byggingu á vegi og rekstur hans þann tíma sem þarf að innheimta veggjöld. Opnað er fyrir innheimtu veggjalda til að nýta slíka vegi til þess að greiða fyrir þá fjárfestingu.

Í greinargerð með frumvarpinu sem fylgir með er m.a. fjallað um að við höfum á undanförnum árum verið hér með og samþykkt þingmál, m.a. um samning um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og síðan lög um samvinnuverkefni í byggingu samgöngumannvirkja sem við höfum einnig samþykkt. Þar er reyndar sniðinn þröngur stakkur um tilteknar framkvæmdir en hér er reynt að opna leið, eins og ég sagði áðan, fyrir sveitarfélög að standa að slíkum framkvæmdum.

Ég ætla að taka skýrt fram strax í upphafi, virðulegur forseti, að ég ætlast ekki til að sveitarfélög sem slík eigi og reki slík félög, einungis að þeim sé heimilt að hafa um það ákveðna forystu að stofna slík félög. Ef ég vísa til greinargerðar sem fylgir þessu frumvarpi þá segir m.a. að meginreglan hin seinni ár hafi verið að samgöngumannvirki séu byggð á kostnað ríkisins og forgangsröðun verkefna byggist á samgönguáætlun. Samgönguáætlun er þingsályktun Alþingis og felur í sér áherslur stjórnvalda í byggingu mannvirkja, vegagerð, höfnum og flugvöllum. Samgönguáætlun er til 15 ára en er endurskoðuð reglulega á Alþingi. Það er eitt af skilyrðum þess sem sett eru fram í lagagreininni um hverjir megi gera slíkan samning, að viðkomandi samgöngubót sé á 15 ára samgönguáætlun sem afgreidd hefur verið frá Alþingi og því afmarkar það með ákveðnum hætti þá vegi sem gætu komið til greina.

Til hvers er ég að skrifa þetta út með þessum hætti? Einfaldlega vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að þegar þingið hefur lagt áherslu á og samþykkt ákveðna forgangsröðun þá er búið að merkja fjármuni til viðkomandi framkvæmdar. Mér finnst eðlilegt að við opnum þá leið fyrir samfélögin að standa að flýtingu framkvæmdarinnar með reglum sem hér eru lagðar til svo flýta megi þeirri framkvæmd sem frekast er unnt. En í engu í framangreindum lögum sem ég vísaði til áðan, er aftur á móti minnst á framkvæmdir í dreifðum byggðum, hvort sem það eru samvinnuverkefnin sem ég nefndi áðan eða höfuðborgarsáttmálinn, sem er í sjálfu sér önnur umræða, og framkvæmdum í dreifðum byggðum er ekki gefinn gaumur, hvort sem það eru tengivegir, jafnvel stofnvegir og hvað þá hálendisvegir sem þarfnast verulegra endurbóta. Frumvarp þetta bætir úr því og byggist í öllum aðalatriðum atriðum á þeirri meginhugsun að þar er lögð til grundvallar, eins og áður segir, framlögð áætlun ríkisins um framkvæmdir en opnað er fyrir innheimtu veggjalda og hlutverk sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á viðkomandi svæði. Þó er rétt að taka það enn og aftur fram — viðkvæmnin snýr eðlilega að því þegar maður horfir til sveitarfélaganna með þessum hætti — að við erum ekki að velta samgönguúrbótum yfir á herðar sveitarfélaga.

Ég get í sjálfu sér, virðulegi forseti, lesið alla greinargerðina en ég kýs að víkja frá henni og vil taka upp nokkur atriði til að varpa ljósi á mikilvægi þess að þingið spreyti sig á að fjalla um þetta mál, fái um það umsagnir og taki síðan ákvörðun um framhald þess í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. „Elementin“ eða megindrifhvatarnir á bak við þetta þingmál eru ekki síður að stuðla að bættri nýtingu fjármuna hins opinbera og opna tækifæri fyrir samfélög til að flýta framkvæmdum sem eru einhvers staðar á samgönguáætlunum, en ástand samgöngumannvirkja er með þeim hætti að það er nánast ógerlegt fyrir viðkomandi svæði að bíða svo lengi eftir framkvæmdunum. Ég horfi til þess og hef á opnum fundum þar sem ég hef kynnt þessa hugmynd lagt áherslu á það að til þess að við getum flýtt slíkum framkvæmdum með þeim hætti sem hér er lagt til þá þurfum við að horfa til þess hvernig við vegum saman innheimtu af umferð og framlag ríkisins á samgönguáætlun og hvort við getum á einhvern hátt losað um fjármuni í viðkomandi héraði til að ráðast í endurbætur á öðrum vegum en þeim sem þegar hafa verið settir á samgönguáætlun. Ekki er nóg að byggja upp einn stofn- eða tengiveg í viðkomandi héraði heldur gæti þetta skapað svigrúm til að losa fjármuni til að komast í framkvæmdir með ódýrari hætti á fáfarnari vegum, sem eru ekki síður mikilvægir, og með kannski minni kröfum en við gerum almennt í dag til vegagerðar.

Það er eðlilegt í þessu sambandi að við ræðum um innheimtu veggjalda og hversu réttlætanleg þau eru, og ég vonast til að í umræðu um þetta þingmál þá munum við kannski fara aðeins yfir það. Ég hef hins vegar þá bjargföstu skoðun að við komumst ekki áfram með nauðsynlegar samgönguúrbætur eða framkvæmdir á samgöngukerfi landsins án þess að brjóta upp margra áratuga form fjármögnunar á samgöngubótum, sem við höfum haft hér um áraraðir. Hins vegar er líka mikilvægt þegar við horfum til þess að stofna félag um tiltekna framkvæmd, að við setjum því stífan ramma hvernig eigi að standa að slíkri innheimtu veggjalda og hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum. Grundvallarþáttur er að það sé einungis ein framkvæmd í einu félagi þannig að við séum ekki að stofna einhvers konar leikvöll til að ráðast í margar samgönguframkvæmdir þar sem ein áhugaverð framkvæmd greiðir niður einhverja framkvæmd sem er kannski ekki eins fýsileg. Þetta er að mínu viti grundvallarþáttur í því hvernig við eigum að nálgast innheimtu veggjalda, sem eru í það minnsta sannarlega enn umdeild í okkar samfélagi; að því sem við greiðum fyrir viðkomandi veg sé sannarlega varið í viðkomandi framkvæmd.

Síðan getum við velt fyrir okkur fjármögnunaraðilanum eða fjárfestinum sem við hleypum inn í þessar framkvæmdir. Á þessum fundum og í samtölum við aðila hef ég orðið þess áskynja og fengið á fundi aðila sem hafa sannarlega hafa áhuga á því að leggja fjármuni til slíkra framkvæmda og gera það með mjög ábyrgum hætti. Við erum ekki að horfa til þess að menn sjái fram á einhverja stjórnlausa ávöxtun þeirra fjármuna sem þarf að leggja inn, ég geng út frá því að menn leggi ekki af stað til þess að tapa fjármunum. Það er þó eðlilegt að við gerum ráð fyrir því að þeir sem vilja leggja til slíkra framkvæmda, hvort sem það er í formi hlutafjár eða lána til viðkomandi félaga, tapi fjármunum. En um þetta allt saman eru ákvæði í frumvarpinu sem ég tel að eigi að sjálfsögðu að horfa til þegar gerðir eru slíkir samningar. En meginmálið er þetta: Við höfum fjárfesta sem vilja koma að slíkum verkefnum og þeir vilja líka að sama skapi ræða og sýna að þeir vilja stýrða ávöxtun af slíkum framkvæmdum. Stýrð ávöxtun í þessu samhengi er þá nokkuð sambærileg gjaldskrá eða gjaldi fyrir jafn mikilvæga innviði og veitur eru í dag, þ.e. við höfum margar veitur í landinu, rafmagnsveitur og hitaveitur, sem hafa stýrða gjaldskrá eða stýrða ávöxtun út úr þeim félögum. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt atriði sem við getum horft til. Með þessum hætti erum við líka að svara ákalli þeirra fjárfesta eða þeirra sjóða sem mögulega hefðu áhuga á að leggja slíku verkefni lið; að samfélagsleg sátt ríki um að þeir komi með fjármagn að þessu verki. Þá erum við líka að horfa til fjárfesta í innviðum sem horfa til mjög langs tíma með hóflega ávöxtun þess fjár sem þeir munu leggja til.

Mikilvægi þessarar lagasetningar þarf ég svo sem ekki að rekja í löngu máli í þessum sal. Þar sem ég kem úr Norðvesturkjördæmi og þekki stöðu mála í öðrum landsbyggðarkjördæmum þessa lands þá finnst mér við einfaldlega ekki ræða of oft í þessum þingsal það hörmungarástand sem er mjög víða í vegamálum á landsbyggðinni. Við erum að keyra daglega leikskóla- og grunnskólabörn víða um mjög slæma, nánast ónýta vegi, vil ég segja. Við erum að reka fyrirtæki og búskap við þessa vegi. Fyrirtæki þurfa að flytja vinnuafl og aðföng um þessa vegi og þessa vegi hafa margir ferðamenn líka leitast við að nota á undanförnum árum. Það eru kannski fyrst og fremst þeir vegir, virðulegi forseti, þar sem ákveðin sprenging hefur orðið í umferð ferðamanna, sem gætu verið áhugaverðir kostir, þ.e. að fara þessa leið með blöndu af gjaldheimtu og framlögum á samgönguáætlun, þar sem eru raunverulega forsendur fyrir því að fara út í stofnun samgöngufélags, byggja, reka og greiða niður fjárfestinguna þangað til að framlag hins opinbera fellur til viðkomandi vegar. Ég held að í þessu felist líka mikil tækifæri, ekki aðeins til að bæta líf fólks í dreifðum byggðum heldur líka til að bæta upplifun þeirra ferðamanna sem vilja sækja þessi héruð heim. Inn í þessa hugmyndafræði, ef við getum kallað það svo, fléttast líka uppbygging annarra innviða eins og áningarstaða eða aðgengi að góðum fjarskiptum, hleðslustöðvum eða aðbúnaði fyrir nýorkubíla.

Þetta eru allt atriði í heildarstærðinni og heildarframkvæmdinni sem við eigum sannarlega að horfa til, þ.e. að við byggjum upp upplifunarferðamennsku með þessari vegagerð á Íslandi. Ég er ekki í nokkrum vafa að ferðalög um Vatnsnes og Skógarströnd, svo ég nefni nú einhverja vegi af handahófi, séu margfalt áhrifameiri þegar menn geta notið fegurðar Breiðafjarðar eða náttúruvætta við Vatnsnes með góðum áningarstöðum og góðum aðbúnaði þeirra ferðamanna sem þangað sækja. Grundvallarmálið er samt þetta: Við þurfum að flýta framkvæmdum í samgöngum á þeim stöðum á Íslandi þar sem vegir eru óboðlegir, reyna að nota fjármagn utan frá og nýta með ábyrgari hætti fjármagn hins opinbera, sem sannarlega leggur til verulega fjármuni til samgönguframkvæmda á Íslandi á hverju ári, og nota síðan krafta markaðarins til að draga áfram vegagerð sem verður síðan í framhaldinu að sérstakri innspýtingu á viðkomandi svæði. Meðan á vegagerðinni stendur verða veruleg efnahagsleg áhrif af vega- eða stofnframkvæmdinni en ekki síður erum við þá búin að skilja eftir tæki í viðkomandi héraði sem við munum byggja framtíðarhagvöxt okkar á og það er einmitt þannig, virðulegur forseti, að verst er ástand vega í þessu landi á þeim svæðum sem við getum kallað efnahagslega köld í dreifðum byggðum.

Með þessu erum við líka að færa ákvörðunarvald eða tæki til heimamanna til þess að hafa áhrif á þróun sinna mála. Í dag hafa sveitarstjórnarmenn í raun og veru engin önnur tæki en að álykta, og þótt landshlutasamtök hafi á undanförnum árum unnið mikið, gott og þarft verk við að álykta um innviði samfélaga sinna, hvort sem það eru raforku-, samgöngu- eða fjarskiptainnviðirinnviðir, og sett fram áætlanir í þeim efnum sem einhvers konar áherslutæki en ekki síst baráttutæki við Alþingi við forgangsröðun fjármuna, þá hafa þau í raun og veru engin önnur tæki í höndunum en að veifa þeim og flytja mál sitt á grunni þeirra þegar samgönguáætlun er til umfjöllunar í þinginu hverju sinni. Með þessu móti færum við vald til heimamanna. Við erum að valdefla sveitarstjórnarmenn í héruðum landsins til að hafa áhrif á sín mál með ríkari hætti en að leita eingöngu til Alþingis og fjárveitingavaldsins og takast á um það í meðförum þingsins á hverjum tíma hvar vegur er staddur á samgönguáætlun hverju sinni. Við höfum þá í það minnsta samgönguáætlun til 15 ára; vegur sem kominn er á samgönguáætlun og á að fara í framkvæmd árið 2030 opnar þá leið fyrir viðkomandi hérað að stofna félag til framkvæmda og gera samninga við hið opinbera að hefja framkvæmdir á eins stuttum tíma og mögulegt er. Hvort sem ríkið velur að greiða framlagið sitt árið 2030 eða dreifa því yfir lengri tíma er síðan bara útfærsluatriði. Ég er ekki að hleypa ríkinu frá því að þurfa að standa sína plikt í að byggja Vatnsnesveg, Skógarstrandarveg eða aðra tengivegi í þessu landi. Ég er einfaldlega að skapa aðstæður til þess að heimamennirnir geti svarað ákalli íbúanna og ferðamannanna um að koma þessum vegum í gott horf á sem skemmstum tíma, sem aftur verður innspýting til þessara byggða til að bæta búsetuskilyrði og skapa verðmæti og eftirsóknarverð lífsgæði. Það er ekki síst driffjöðrin á bak við þetta þingmál; að bæta lífsskilyrði fólks til þess að efla samkeppnishæfi dreifðrar byggðar á Íslandi.

Virðulegur forseti. Ég gæti í sjálfu sér tínt til fleiri góð rök fyrir þessu en mig langar aftur á móti að við gefum þessu gaum. Ég er ekki að víkja út frá þegar markaðri stefnu sem hefur verið afgreidd hér í þessum þingsal. Ég er raunverulega að prjóna við áherslur núverandi hæstv. innviðaráðherra í þessum efnum og reyna að draga fram krafta sem gætu nýst hinum dreifðu byggðum hér á Íslandi. Því er ekki um stóra stefnubreytingu að ræða með þessu þingmáli heldur er verið að færa fram verkefni fyrir þingið og tækifæri fyrir sveitarstjórnarmenn sem þeir gætu fengið í hendurnar til að hafa sannarleg áhrif á þróun sinna samfélaga. Þegar öllu er á botninn hvolft ættum við kannski oftar að ræða hér inni í þessum þingsal hvernig við valdeflum samfélögin út um land allt til að hafa meiri áhrif á stöðu sína og hvernig samfélög þeirra koma til með að þróast til skemmri og lengri tíma.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðu um þetta litla frumvarp mitt legg ég til að það gangi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.