Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:33]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur, kærlega fyrir að vekja máls á þessu og gefa tilefni til þess að ræða eðli og starfsemi stjórnmálaflokka sem við sem erum hér í þessum sal um þessar mundir erum öll hluti af. Það er auðvitað rétt sem hefur komið fram hér í umræðunni að stjórnmálaflokkar eru í eðli sínu frjáls félagasamtök og búið er að velta upp spurningum í því samhengi um eðli slíkra félagasamtaka, hvort eðlilegt sé að þau séu á framfæri hins opinbera o.s.frv., og þetta eru allt saman mjög eðlilegar spurningar. Það er líka mjög eðlileg spurning sem kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi sem sett er fram um sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera þegar svo háttar um að þeir fá stóran hluta sinna tekna frá hinu opinbera eins og fyrirkomulagið er í dag.

Þá gefst líka tilefni til að tala um það sem hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna hér í dag, m.a. í máli hv. þingmanna Halldórs Auðar Svanssonar og Guðbrands Einarssonar um þetta lýðræðishlutverk stjórnmálaflokkanna; að tryggja að þeir séu óháðir hagsmunaaðilum úti í samfélaginu. Eins og hv. þm. Guðbrandur Einarsson nefndi mjög réttilega hér áðan þá eru þingmenn oft í þeirri stöðu að setja hér lög og hreyfa hlutum sem kunna að hafa óæskileg eða óþægileg áhrif á jafnvel þeirra hörðustu stuðningsmenn. Hér á Íslandi hafa stjórnmálaflokkarnir auðvitað lengst af verið svona dálítið eins og óháð frjáls félagasamtök en það er ekki alls staðar svoleiðis, t.d. í Þýskalandi er jafnvel talað um hlutverk stjórnmálaflokka í stjórnarskrá og þeir taldir mjög mikilvægur hluti lýðræðiskerfisins.

Aðeins að þessu frumvarpi hér. Án þess að ég ætli að taka afstöðu til þeirra upphæða sem þarna er talað um, þá held ég að það sé kannski ekki alveg tilefni til að lækka þessa styrki því að ég er í grunninn hlynntur því að stjórnmálaflokkar séu frekar óháðir aðilum úti í samfélaginu heldur en fjárframlögum frá hinu opinbera. Þó svo að hið opinbera sé að leggja til fjármuni í starf þessara flokka þá held ég í sjálfu sér að það sé ekki að gera þá háða sér á einn eða neinn hátt. Þessir stjórnmálaflokkar væru einfaldlega ekki til ef þessi salur væri ekki hér. Ef þetta þing væri ekki til staðar þá væri engin þörf fyrir þessi frjálsu félagasamtök, þannig að þeir eru til staðar til þess að halda þessari starfsemi gangandi.

Ég er þó sammála einu í þessu frumvarpi, sem er að hækka þetta lágmark. Ég er jafnvel ekkert ósammála því að þeir stjórnmálaflokkar sem ekki ná fólki inn á þing ættu ekki að þiggja styrki frá hinu opinbera. Þetta finnst mér persónulega og ég tek fram að ég er ekki að lýsa neinni skoðun sem hefur verið rædd í mínum hópi eða neitt slíkt. Mér finnst þetta 2,5% lágmark fulllágt, því að ég myndi halda að alls konar öfgahreyfingar ættu auðvelt með að ná því þegar fram í sækir. Það er líka rétt sem kom fram hér fyrr í dag í máli hv. þm. Ingu Sæland, að bjargir stjórnmálaflokka eru gríðarlega ólíkar sem og tengsl þeirra, saga og allt slíkt. Ef maður horfir t.d. annars vegar á flokk flutningsmanns þessarar tillögu og hins vegar flokk hv. þm. Ingu Sæland er himinn og haf á milli þeirra bjarga sem yfirlýstir stuðningsaðilar þeirra stjórnmálaflokka búa að. Því held ég að það sé æskilegt að sá munur sé á einhvern hátt jafnaður í þágu lýðræðislegrar umræðu og lýðræðislegrar þátttöku.

Það er svo að í stjórnmálafræðinni hefur lýðræðisleg þátttaka mikið verið rannsökuð og þátttaka almennings í stjórnmálastarfi almennt. Skilgreining stjórnmálafræðinganna Milbraths og Goels frá árinu 1977 er fræg, þar sem þeir skipta fólki í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn er hinir svokölluðu skylmingaþrælar sem eru fólk eins og við hér sem er á kafi í stjórnmálabaráttu, tekur þátt í starfi stjórnmálaflokkanna o.s.frv. og býr að kannski öðrum björgum en þeir sem ekki taka jafn mikinn þátt. Síðan eru það áhorfendur sem eru um 60% þjóðarinnar, þeir sem fylgjast að jafnaði eitthvað með stjórnmálum, taka þátt í kosningum o.s.frv. en eru kannski þess á milli ekkert mikið að skipta sér af. Loks er það hins vegar sá hópur sem kannski er vert að hafa hvað mestar áhyggjur af, en það eru þeir sem Milbrath og Goel kölluðu sinnuleysingja, sem engan áhuga hafa á stjórnmálum og munu aldrei koma að því að skipta sér af því sem fer fram á vettvangi stjórnmálanna. Þetta eru oft ungir, ómenntaðir og atvinnulausir íbúar í fátækrahverfum, fólk í minnihlutahópum og fólk sem talar ekki megintungumál þess samfélags sem það býr í.

Ég vil benda á að það er í sjálfu sér ákveðin hætta sem við stöndum frammi fyrir núna að þessi hópur á Íslandi fari stækkandi, einfaldlega vegna þess stóra hóps fólks sem hefur flutt til landsins og talar ekki íslensku að sínu fyrsta tungumáli og gæti fallið á milli skips og bryggju þegar kemur að lýðræðislegri þátttöku og lýðræðislegri umræðu í landinu. Af hverju er ég að tala um þetta? Jú, vegna þess að það er hlutverk þessara frjálsu félagasamtaka sem við köllum stjórnmálaflokka að virkja þetta fólk og reyna að ná til þess. Kostnaðurinn við það að ná til fólks sem talar fullt af alls konar tungumálum sem við tölum ekki venjulega hér, er töluverður og hefur aukist talsvert undanfarin ár.

Það er líka vert að benda á það að stjórnmálaflokkar starfa á mismunandi hátt. Það eru til svokallaðir fjöldaflokkar sem eiga sveitarstjórnarfólk og flokksfélög um allt land og halda landsfundi með þúsundum fulltrúa o.s.frv. Síðan erum við með kjarnaflokka sem eru miklu minni, en ég er engu að síður ekki að gera lítið úr lýðræðislegu mikilvægi slíkra flokka. Það getur vel verið að þó svo að ekki séu margir félagar í einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokkum þá eigi þeir fullt erindi með sína rödd inn á þing, og auðvitað eru kjósendur dómarar um erindi stjórnmálaflokka og -manna þegar upp er staðið í kosningum. En það er misdýrt að halda úti þessum flokkum og það að halda úti starfi um allt land er líka bara mjög mikilvægur hluti þess að halda úti byggð um allt land og styrkja landsbyggðina. Það að stjórnmálaflokkar búi að fjárhagslegum björgum til að halda slíku starfi gangandi er að mínu mati mjög mikilvægt. Lengst af hafa verið fleiri félagar í stjórnmálaflokkum á Íslandi en víðast hvar annars staðar eða um 20%, eftir því sem kannanir hafa sýnt. Þó hefur þeim farið fækkandi undanfarinn áratug og áhugi fólks á stjórnmálum og þátttöku í stjórnmálaflokkum hefur minnkað. Ég myndi telja það áhyggjuefni, því að ég held að það sé þroskandi fyrir fólk að taka þátt í stjórnmálastarfi og taka þátt í þeirri lýðræðislegu umræðu sem fer fram á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Þó svo að við séum oft að berjast um ákveðin málefni á kannski svolítið einfaldaðan hátt, og oft er birtingarmynd þess mjög sýnileg í þessum sal, þá gefa stjórnmálin líka tilefni til að taka djúpa umræðu um mikilvæga hluti þegar þess gerist þörf.

Ég er frekar hallur undir þá hugmynd sem fram kemur í þessu frumvarpi að hækka hámarksupphæðir sem einstaklingar og lögaðilar mega leggja til stjórnmálastarfs. Ég held að fullt tilefni sé til þess, þegar hugsað er um verðbólgu- og verðlagsþróun undanfarinna ára, að hækka þær upphæðir og ekkert því til fyrirstöðu.

Að lokum langar mig til þess að þakka aftur fyrir tækifærið til að fara í þessa umræðu sem ég held að sé mikilvæg. Hún er mikilvæg fyrir þingið, okkur í stjórnmálaflokkunum og lýðræðið á Íslandi. Hafi flutningsmenn bestu þakkir fyrir. Það verður spennandi að sjá hver örlög þessa frumvarps verða í nefndum og síðari umræðum hér í þessum sal.