131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:11]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör í þessum efnum og þeim þingmönnum sem tóku til máls. Hér hefur komið fram að þessi lög eru í endurskoðun, eins og við höfum reyndar vitað lengi, og að fljótlega muni þau koma til hins háa Alþingis. Ég vona að það verði nægjanlega snemma svo að hv. sjávarútvegsnefnd geti þá unnið málið núna. Sjávarútvegsnefnd er svo sem ekki með mjög mörg mál undir höndum.

Ég vil aðeins kasta þeirri hugmynd til hæstv. ráðherra hvort ekki væri ástæða til að kynna sjávarútvegsnefnd þau drög að lögum sem eru í vinnslu og þær hugmyndir sem þar eru, jafnframt reglugerðum, til þess að vinna einhvern tíma. Betur sjá augu en auga. Ég spyr líka hvort hagsmunaaðilarnir hafi fengið að koma að þessari lagasmíð. Þó tek ég skýrt fram að það á ekki eingöngu að setja lög eftir kröfu frá hagsmunaaðilum og setja það inn sem óskað er, heldur hafa það í heiðri sem þeir kunna að leggja fram vegna þess að þeir hafa mikla reynslu í þessu.

Hér nefndi hv. þm. Gunnar Örlygsson athyglisverðan punkt um gæðamál. Þetta er mjög mikilvægt og ég held, virðulegi forseti, að það væri ekki verra fyrir framgang málsins, ásamt þingmálum almennt — við sjáum í ýmsum þingmálum að hagsmunaaðilar hafa fengið að koma að og ýmsir hafa fengið að gefa álit sitt — að sjávarútvegsnefnd yrði kynnt þetta núna á undirbúningsstigi þannig að við yrðum betur í stakk búin til að klára málið á þessu þingi ef það kemur.

Ég lýsi sjálfur yfir miklum stuðningi við þessa nýju lagasetningu enda hefur mikið breyst í lagaumhverfi fiskmarkaða frá því að lögin voru fyrst sett árið 1990, þó með þeim sjálfsagða fyrirvara hvað varðar innihald frumvarpsins.

Það má segja, virðulegi forseti, að baráttumáli þeirra aðila sem starfrækja fiskmarkaði á Íslandi sé að ljúka ef við getum klárað þetta á þessu þingi.