131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:13]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir við fyrirætlan mína um að leggja fram frumvarp til laga um lög um uppboðsmarkaði. Mikið samstarf hefur verið haft við fiskmarkaðina á undanförnum árum og okkur eru mjög vel ljósar áherslur þeirra og hugmyndir í þessum efnum, bæði hvað varðar hugsanlega löggjöf og eins þær reglugerðir sem henni tengjast væntanlega. Það verður örugglega talað við þá áður en frá þessu verður gengið í endanlegu formi af hálfu ráðuneytisins.

Það er hins vegar ekki víst að í svona máli þar sem undirtektir eru jákvæðar að það flýti neitt sérstaklega fyrir afgreiðslu málsins að ræða það við sjávarútvegsnefnd áður en frumvarpið verður lagt fram í þinginu. Ef þetta er á þeim nótum sem maður hefur verið að ímynda sér held ég að það vinnist alveg jafnhratt með því að það komi beint inn í þingið og fari eftir hefðbundnum leiðum. Ef einhver sérstök sjónarmið eru uppi er svo sem alveg mögulegt að fara eitthvað yfir það áður. Ég ætla ekki að aftaka það hér og nú.

Ég vil hins vegar aðeins áður en ég hleyp niður úr stólnum gera smáathugasemd við orðafar hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um að ráðherrar skili af sér lögum. Ráðherrar gera það ekki, þeir leggja fram frumvörp og það er Alþingi sem síðan samþykkir frumvörpin eftir atvikum og þá verða þau að lögum.