136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

mál á dagskrá -- framhald þingfundar.

[14:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við dagskrána sem liggur fyrir fundinum og þá kannski sérstaklega við mál nr. 4 á dagskránni, frumvarp sem ég flyt ásamt 14 öðrum þingmönnum á hinu háa Alþingi og varðar sölu áfengis og tóbaks. Kvartað hefur verið yfir því að óeðlilegt sé að þetta mál sé rætt miðað við aðstæðurnar sem uppi eru.

Þetta mál var lagt fram á fyrsta degi þingsins, áður en fjármálakerfið hrundi. Ég get fallist á að það er ekki brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna í dag, ekki frekar en ýmis önnur mál sem eru á dagskránni, eins og mál nr. 7 um tóbaksvarnir eða mál nr. 10 um skipafriðunarsjóð. Ég viðurkenni það og hygg að aðrir hv. þingmenn sem flytja málið með mér telji að hér þurfi að ræða önnur og brýnni viðfangsefni og ég get lýst því yfir sem 1. flutningsmaður málsins að mér finnst sjálfsagt að fresta umræðu um þingmálið og taka það fyrir síðar. Ef það verður til að greiða fyrir þingstörfum og skapa ekki úlfúð á þinginu, (Forseti hringir.) þá er það mér algerlega að meinalausu að við frestum umræðu um málið og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti taki beiðni mína til góðfúslegrar skoðunar.