139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:11]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál og vekja athygli á því að Læknavaktin hefur nú sagt upp þeim 100 starfsmönnum sem þar starfa. Samningur Læknavaktarinnar rann út núna um áramótin og það er greinilegt að Læknavaktin metur það svo að samningaferlið hafi ekki gengið það greiðlega eða staðan sé þannig að leita þurfi þeirra úrræða að segja upp starfsmönnum. Sannarlega mun þessi aðgerð þrýsta á samningsaðila um gerð kjarasamninga eða skipulagsbreytingar eða hvað sem uppi er varðandi vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, það segir sig sjálft.

Það er alltaf alvarleg aðgerð þegar stofnanir telja sig þurfa að grípa til þess ráðs að segja upp kjarasamningum en það er tími til stefnu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að öllum aðilum sé alvaran ljós og að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sé ekki í stakk búin til að taka við þjónustu Læknavaktarinnar eins og hún er í dag og þess vegna þurfi að leysa þessa kjarasamninga.

Heilbrigðisnefnd sem slík og Alþingi koma ekki að gerð kjarasamninga en heilbrigðisnefnd og Alþingi láta sig það auðvitað varða ef stefnir í skerta þjónustu eða neyðarástand í heilbrigðisþjónustunni vegna uppsagna eða þess að menn ná ekki saman í kjarasamningum. Ég ætla að vona að til þess komi ekki.