143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu var ekki bara einhver hugarburður formanns Sjálfstæðisflokksins heldur segir á bls. 5 í stefnuskrá flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar, með leyfi forseta: „… þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Það var bæði í ræðu og riti. Það var hamrað á þessu í kosningabaráttunni og hefur verið farið yfir það aftur og aftur. Við erum hér að henda líflínu til Sjálfstæðisflokksins þannig að hann geti þó a.m.k. borið höfuðið hátt gagnvart kjósendum sínum og líka gagnvart því … [Hlátur í þingsal.] Ég held að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu ekki að hlæja að þessu vegna þess að þeir eru í verulegum vanda. Meiri hluti þeirra kjósenda vill þjóðaratkvæðagreiðslu. Svona svik eru söguleg gagnvart kjósendum þeirra, gagnvart þjóðinni. Það er líka dónaskapur og eyðileggjandi fyrir pólitíkina í heild sinni (Forseti hringir.) þegar menn fara svona illa með loforð sín, (Forseti hringir.) eins og við erum hér að verða vitni að.