143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Tillagan sem hér er til umræðu og er efni þessarar dagskrártillögu á erindi vegna þess að ef hún verður ekki samþykkt fyrir vikulok glatast tækifærið til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor. Það var ekki viljaleysi okkar í stjórnarandstöðunni um að kenna að hún kom ekki fram fyrr. Við bara trúðum því að hæstv. fjármálaráðherra ætlaði efna kosningaloforðin sín. Við vorum svo bláeyg að halda að hann meinti eitthvað með þeim orðum sem hann lét falla og ég las hér áðan: „Við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.“ Þetta sagði hann aðspurður um hvernig honum litist á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel þó hann myndaði stjórn með Framsóknarflokknum.

Það er ósköp einfaldlega þannig að stjórnarflokkarnir virðast núna ætla að læsa sig saman um leið til að koma í veg fyrir að þjóðin fái nokkra aðkomu að þessu máli, þvert á ítrekuð fyrirheit. (Forseti hringir.) Við höfum gefið þjóðinni fyrirheit um að greiða atkvæði um endanlegan samning. Stjórnarflokkarnir gáfu fyrirheit sem þeir eru núna að svíkja. (Forseti hringir.) Við verðum að gefa þingmönnum Sjálfstæðisflokksins tækifæri til þess að bjarga einhverju af reisn sinni.