143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ástæðan fyrir því að maður veltir þessu fyrir sér er sú að við höfum staðið hér og kallað eftir svörum frá hæstv. ráðherra og líka frá þingmönnum stjórnarliðsins, hvers vegna þeir dembi þessari tillögu hingað inn áður en blekið á skýrslunni er þornað, sem átti að vera grundvöllur allrar ákvarðanatöku um framhaldið. Það er einmitt eins og menn séu að rífa í einhvern neyðarhemil eins og hv. þingmaður nefnir, kallar það brunaútsölu í Brussel. Eina svarið sem við höfum fengið hingað til var í kvöldfréttunum í kvöld, að einhver innan Evrópusambandsins hefði sagt eitthvað í viðtali einhvers staðar.

Ég verð að segja alveg eins og er og mig langar að spyrja hv. þingmann að því líka hvort hann hafi eitthvað hugleitt og viti hvers vegna stjórnarflokkarnir ganga lengra í tillöguflutningi sínum um að slíta viðræðum en gert er í stjórnarsáttmálanum þar sem talað er um að gera hlé vegna þess að á þessu er töluvert mikill munur og hvort hv. þingmaður hafi getað greint það einhvern tímann í máli hæstvirtra ráðherra hvers vegna þeir gera það og í svo miklum flýti líka.