143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[23:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meginefni þingsályktunartillögu okkar er að finna sáttafarveg. Hann byggir á því að málið verði sett í frost, að gerð verði formleg stöðvun á viðræðum við Evrópusambandið, viðræður verði ekki teknar upp að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og á þeim forsendum held ég að allir tali, fulltrúar allar flokka hér.

Við viljum hins vegar að atkvæðagreiðsla um málið fari fram á þessu kjörtímabili, innan þessa kjörtímabils, en við höfum ekki sett fram tillögu, fastmótaða tillögu um spurninguna og þar var ég að segja að mismunandi sjónarmið væru innan okkar raða eins og annarra. En við vekjum athygli á því í greinargerð okkar (Forseti hringir.) að annars vegar eru þeir sem vilja spyrja hvort fólk vilji halda viðræðunum áfram og hins vegar þeir sem eru sammála því sjónarmiði sem ég hef verið að lýsa (Forseti hringir.) sem mínu sjónarmiði, að það eigi að spyrja hvort fólk vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.