143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að ræða þetta mál í björtu. Áður en ég var trufluð af hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag var ég að reyna að biðja um svör hæstv. forseta við því hvers vegna við þurfum allt í einu að sitja hér kvöld eftir kvöld á fundum og nú á að fara að keyra inn í nóttina út af þessu eina máli. Það eru tveir og hálfur mánuður eftir af þingi. Hvað er í gangi? Getur hæstv. forseti ekki bara svarað okkur og upplýst okkur um þetta? Hvers vegna eru menn að flýta sér svona mikið með þetta eina mál að það þoli ekki umræðu í dagsbirtu þegar svona mikið er eftir af þinginu og engin önnur ný mál af stærðargráðu við þetta eru komin inn í þingið? Ég skil þetta ekki. Það væri kannski auðveldara að ræða málið ef við hefðum bara einhverja hugmynd um þetta.

Ég vil gjarnan fá að vita hvers vegna hæstv. forseti ætlar að láta okkur fara fram yfir miðnætti í umræðum um þetta mál.