143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[00:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er dapurlegt að þurfa að gera margítrekað hlé á henni þar sem hæstv. utanríkisráðherra er áfjáður í að vera hér fram á nótt, eins og hann hefur látið hafa eftir sér, að það sé ekki málið. Þá væri ágætt að hann væri hérna og best væri auðvitað að hann tæki þátt í umræðunni.

Eins og hv. þingmaður veit erum við kannski ekki alveg einhuga um ágæti Evrópusambandsins en það breytir því ekki að ég hef haft þá skoðun að skynsamlegt sé að klára viðræðurnar og leggja fyrir samning. Ef það er ekki boðið á þessum tímapunkti tel ég að tillaga okkar Vinstri grænna, sem við höfum lagt fram, sé sáttaleikur í stöðunni. Ég spyr um viðhorf hv. þingmanns til þeirrar tillögu.

Mig langar líka að velta upp með þingmanninum, af því að hann þekkir mun betur Evrópumálin en ég, hvað það er sem hann telur helsta ávinninginn af því að sækja um aðild eða af því að ganga í Evrópusambandið. Hver er aðalávinningurinn af því fyrir þjóðina og hvað væri það helst sem kæmi okkur síst, þ.e. hvað er það sem þjóðin mundi eiga erfiðast með að sætta sig við ef viðunandi samningur næðist, sem við mundum leggja á borðið, það yrði aldrei öðruvísi? Hvað er það sem er áhugaverðast og best fyrir þjóðina að hans mati og er eitthvað sem hann sér fyrir sér að gæti orðið ásteytingarsteinn?