143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni en vek samt eftirtekt hennar á einu, að Evrópusambandið er byrjað að skrúfa þessa stefnu niður hjá sér. Kaflaskilin urðu þegar sósíalistar og jafnaðarmenn, sem eru í flokki í Frakklandi sem spannar það vítt svið að þar mundum við, ég og hv. þingmaður, vera í sama flokki, komust til valda. Þá var dregið strik í sandinn og hinn sterki öxull Þýskalands og Frakklands, sem hefur í reynd ráðið för innan Evrópusambandsins, brast að þessu leyti til. Það má segja að Hollande forseti hafi staðið nægilega sterklega uppi í hárinu á Þjóðverjum til þess að breyta þessari stefnu. Það kemur t.d. fram í margvíslegri eftirgjöf gagnvart hinum sunnlægari ríkjum Evrópu sem höfðu fengið tiltekna aðstoð og sömuleiðis fengið ákveðin skilyrði sem þau urðu að uppfylla til þess að fá hana útgreidda. Það hafa verið töluverðar eftirgjafir á því og líka varðandi frændur okkar og frænkur á Írlandi. Það hefur orðið ákveðin breyting og viti menn, það er eins og við manninn mælt að það verður strax efnahagsbati í Evrópu þegar menn slaka á þessu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var góðu heilli fjórum árum á undan Evrópusambandinu í þessu. Og hvert var fyrsta landið þar sem þeir drápu niður fæti þar sem þessa sá stað? Ísland. Hvað sagði Stieglitz nóbelsverðlaunahafi þegar hann kom hingað og tók út stefnuna, andstæðingur og harður skeptíker Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Íslendingar hljóta að hafa ótrúlegan sannfæringarmátt. Þið eruð eina ríkið sem vinnur með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur náð þessu fram. Þetta markaði stefnubreytingu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði um Evrópusambandið eða það sem ég las úr ræðu hv. þingmanns, að Evrópusambandið er þrátt fyrir allt samband sem hefur beitt sér fyrir (Forseti hringir.) stefnu sem jafnaðarmenn í mjög mörgum löndum gætu verið (Forseti hringir.) stoltir af og það er ein ástæðan fyrir því, herra forseti, (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn hefur fóbíu gagnvart Evrópusambandinu sem ég veit að hæstv. forseti deilir varla.