143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það svo að skýrslan sem við höfum verið að fjalla um í fimm daga, held ég, og núna eina nótt á ekki aðeins að undirbyggja ákvörðun stjórnvalda heldur á hún einnig að verða til þess að undirbyggja umræðuna í samfélaginu um þessi mál. Í sjálfu sér er skýrslan ágæt en hún er takmörkuð og eins og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni vantar umfjöllun um hlýnun jarðar, önnur umhverfismál, um fátækt, kvenfrelsi, alþjóðlega glæpastarfsemi og svo mætti áfram telja um félagsleg mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að þetta þurfi allt að vera með í umræðunni þegar við veltum fyrir okkur hvort aðild sé æskileg eða ekki.