144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferðinni gagnmerkt mál sem verðskuldar að því sé sýnd athygli. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir ágæta vinnu, að því er virðist, og þær breytingartillögur sem hún leggur til, sem ég held að fljótt á litið séu allar vel ígrundaðar og til bóta.

Ég vil þó segja í sambandi við þetta mál að ég hefði fagnað því að fá um það meiri upplýsingar, annaðhvort af hálfu hv. nefndar eða í greinargerð með frumvarpinu, sem ég hef svo sem ekki þaullesið endanna á milli, hvernig þessi mál standa almennt talað hjá okkur varðandi varðveislu menningararfsins að þessu leyti og þau háleitu markmið, sem eru ágæt, að tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Þetta er meira rammi utan um það að takast á við nafngiftir á nýjum örnefnum og skera úr um ágreining ef upp kemur, og hafa samráð um það. Hér er í raun ekki fjallað um stöðuna eins og hún er að öðru leyti eða litið til baka hvað varðar skráningu örnefna og úrvinnslu á þó þeim gögnum sem til eru. Nú kann vel að vera að það eigi alls ekkert heima hér nema til fróðleiks. Ég held að það væri engu að síður áhugavert að fá betra yfirlit yfir það og yfirsýn hvar við erum á vegi stödd varðandi það að varðveita og viðhalda og bera til komandi kynslóða þennan menningararf af því ég óttast að það sé ansi brotakennt hvernig málum er háttað á einstökum svæðum á landinu.

Það er mín reynsla af því að vinna með þessi mál — hún er auðvitað orðin svolítið ryðguð og þó ekki. Ég hef af og til á undanförnum árum og áratugum unnið að verkefnum sem tengjast stöðu þessara mála. Ég gerði það sem námsmaður í jarðfræði og í jarðfræðirannsóknum á sínum tíma. Ég kom einu sinni að því að gera hringsjá eða útsýnisskífu á ónefndum stað á landinu. (Gripið fram í: Við viljum vita hvar.) Það er nánar tiltekið á Gunnarsstaðaási í um það bil 110 metra hæð yfir sjó og á þeirri skífu eru líklega um hundrað örnefni. Hún er allítarleg enda er þar víðsýnt mjög, ákaflega fallegur víður fjallahringur. Í björtu veðri má greina hundruð örnefna og sjá allt í 60 kílómetra fjarlægð til Krossavíkurfjalla austan Vopnafjarðar og inn í Hvammsstaðafjallgarð skammt norður af Hólsfjöllum.

Það sem var athyglisvert og merkilegt við þá vinnu var auðvitað hversu erfitt reyndist að sannreyna ýmis örnefni og hversu mismunandi kortagrunnar eru meingallaðir og jafnvel hversu vandasamt getur verið að fá á hreint, eftir því sem hægt er með aðstoð hinna bestu og vísustu manna, hvað skuli teljast rétt. Ég get bara sagt af því dæmi að það kom í ljós að hnjúkar og hæðir og fjöll á utanverðu Langanesi, sem vel sést til af þessum stað — þar reyndust nafngiftir á reiki og við sannreyndum að kort voru röng í nokkrum tilvikum. Við kölluðum til okkar alla eldri og staðkunnugri einstaklinga á svæðinu sem við töldum að gagn væri af að fá til skrafs og ráðagerða um þetta í góðu veðri þarna uppi á ásnum. Það kom fljótlega í ljós að mönnum bar ekki alltaf saman. Heimamönnum bar ekki einu sinni alltaf saman, hvað þá að danskir kortagerðarmenn hefðu getað áttað sig á þessu á sínum tíma.

Þetta leiðir mann að því að huga að gömlu örnefnaskránum — gríðarlega merkilegt starf sem aðallega var unnið upp úr miðbiki síðustu aldar, ef ég man rétt, með ferðalögum um landið og viðtölum við heimamenn. Búnar voru til merkar skrár sem eru án efa dýrmætasti gagnagrunnurinn þrátt fyrir allt að örnefnum. En þær voru barn síns tíma og þær voru unnar af vanefnum, skulum við segja, og síðan var ekki unnið úr þeim með þeim hætti sem hefði verið ákaflega æskilegt, að fylgja þeirri söfnun eftir með úrvinnslu á skránum og fara í það verkefni að reyna að sannreyna, með samanburði og samtölum við fólk, hvað skyldi teljast réttast í þessum efnum.

Þetta er að mínu mati kannski stærstur hluti þess að varðveita þennan menningararf, og þó fyrr hefði verið, þ.e. að reyna að bjarga, á meðan þekkingin er til staðar, öllu sem bjargað verður um örnefni eins og þau hafa verið notuð gegnum tíðina. Af hverju er þetta sérstaklega brýnt núna? Jú, það er vegna þess að þessi þekking er að glatast mjög hratt. Það gerist meðal annars vegna þess að landnýtingin er orðin önnur en áður var. Við getum tekið sem dæmi sauðfjárbúskapinn og vetrarbeitina. Þegar miklu meira var farið um landið og arfurinn gekk frá kynslóð til kynslóðar skiptu örnefnin miklu máli, sauðamennirnir þurftu að vita nákvæmlega á hvaða hól þeir voru eða við hvaða rjúpnaþúfu. Allt hafði þetta nöfn til hægðarauka til að hægt væri að vísa til þess að þetta hefði fundist þarna eða væri á hinum staðnum. Nú er þetta mjög breytt. Menn fara miklu minna um landið fótgangandi, minna ríðandi og ferðalögin hafa kannski færst yfir á snjósleða þegar allt er á kafi í fönn og ekki alltaf auðvelt að átta sig á örnefnunum o.s.frv.

Það er þó helst þannig, að minnsta kosti af minni reynslu af þessu, að það er smalamennskan og slík ferðalög um landið, gangandi eða á hestbaki gjarnan, sem eru drýgst í að halda þessu við, alla vega þegar kemur eitthvað frá bæjum. Það sem væri langæskilegast að gera er að vinna þetta á heildstæðan hátt með skipulögðu starfi sem miðaði að því að vinna úr öllum þeim gögnum sem fyrir eru, safna í eyðurnar, því að þær eru enn til staðar. Skrárnar voru misítarlegar og unnar af mismunandi aðilum eða mismunandi aðferðir notaðar við að safna upplýsingunum á sínum tíma. Ég veit satt besta að segja ekki hve miklu hefur verið bætt í nema staðbundið á einstökum svæðum hafa menn gert þetta vel. Nægir að nefna þar hina glæstu bók um örnefni í Mjóafirði þar sem ómetanlegur menningararfur er færður í letur og þar með varðveittur. Ef lýsingarnar eru greinargóðar þá dugar það mönnum lengi þó að hitt sé að sjálfsögðu líka gott að nýta tæknina og færa örnefnin síðan inn á kort og/eða staðsetja þau með hnitum.

Á einstöku bújörðum hefur þetta verið gert. Þar hafa menn tekið sig til og búið út vandaða ítarlega örnefnaskrá fyrir býlin. Þar er það gjarnan þannig að í næsta nágrenni bæjanna skipta örnefnin hundruðum ef farið er ofan í smálandslagið hið næsta byggð, en svo verða þau strjálli þegar fjær dregur, en ég geri þó fastlega ráð fyrir því að nokkur þúsund hektara jörð búi yfirleitt yfir einhverjum hundruðum örnefna. Það er dálítill sjóður í hverju og einu tilviki, svo að maður tali nú ekki um stærri jarðir. Þegar þær eru orðnar einhverjir tugir eða jafnvel hundruð ferkílómetrar má reikna með því að örnefnin ættu að skipta þúsundum, hafi þau ekki glatast.

Ég vil bara koma þessum hugleiðingum að, herra forseti, vegna þess að mér er annt um þetta. Ég velti fyrir mér hvort hv. nefnd hefur eitthvað farið inn í þessar hliðar málsins. Ef ekki þá væri það alla vega verðugt verkefni að fara yfir stöðu okkar að þessu leyti. Ég held að það sé ekki ráð nema í tíma sé tekið. Auðvitað er þetta verkefni sem hefði haft mikið gildi ef menn hefðu getað unnið meira í þessu áður en þær miklu búháttabreytingar og búferlaflutningar og fækkun fólks í sveitum o.s.frv., sem hefur gengið yfir á umliðnum áratugum, gekk allt saman í gegn. En það er þó alltaf mikilvægt að halda til haga og bjarga því sem bjargað verður.

Ég vil í öðru lagi velta fyrir mér skilgreiningum hér í frumvarpinu í 2. gr. þar sem talað er um örnefni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.“

Þetta er að mínu mati aðeins of takmarkandi skilgreining. Það er ekki alltaf þannig að örnefni, eða heiti að minnsta kosti, sem er nú nokkurn veginn samheiti hér, vísi alltaf til tiltekins staðar. Við erum iðulega með örnefni sem vísa til svæða þar sem jafnvel skilgreiningin á því hversu stórt og umfangsmikið viðkomandi svæði er er ekki alveg hrein, enda skiptir það ekki öllu máli. Sumar slíkar nafngiftir hafa jafnvel bara orðið til eins og örnefni gjarnan verða og ekkert öll mjög gömul. Þannig er til dæmis örnefnið Tröllaskagi ekkert óskaplega gamalt. (Gripið fram í: … nýtt.) Það er tiltölulega nýtt, en mjög fast í málinu. Hvað er Tröllaskagi? Er það einhver einn ákveðinn staður? Nei, það er allur hálendisbálkurinn milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, norður undir Siglunes og (Gripið fram í.) langt suður eftir skaganum inn að Laugarfelli eða eitthvað slíkt. Ég tel reyndar Tröllaskaganafngiftina glæsilega, hann er tröllslegur og flottur. Svona gæti ég haldið áfram.

Það eru mörg örnefni sem eru svæðaheiti. Að þessu leyti til er skilgreiningin hér aðeins of takmarkandi að mínu mati. Það kemur kannski ekkert að sök, enda mun lagabókstafurinn sennilega ekki breyta málvenjum eða því hvernig þessir hlutir þróast og gerast í reynd.

Ég er ekki andstæðingur þess að halda utan um þetta með skipulagi varðandi til dæmis nýjar nafngiftir því að einhver agi verður að vera í hernum eins og Sveik sagði. En ég er um leið dálítið hræddur við að fara að festa þetta í of mikil kerfisbönd vegna þess að fyrir mér er þetta lifandi og dýnamískt samhengi sem sprettur af því að menn gefa hlutunum nöfn. Kannski hefur nafngift gleymst og enginn er lengur til staðar sem man eftir því hvað viðkomandi dalverpi eða hvammur eða hvappur — vita nú auðvitað allir hér í salnum hvað hvappur merkir — heitir. Þá kannski koma aðrir og finnst ómögulegt að þessi staður beri ekki nafn og gefa honum nafn. Mér finnst að menn eigi að hafa vissan rétt til þess einhvern veginn. Það munu menn sjálfsagt gera í einhverjum mæli jafnvel án þess að fara hina formlegu leið og tilkynna það til skráningar o.s.frv.

Ég hef tekið þátt í því tiltölulega nýlega að nefna fjall. Hverjir gerðu það, herra forseti? Jú, það gerðum við nú bara gangnamenn í Dalsheiði. Við ákváðum bara að myndarlegt fjall innarlega í heiðinni skyldi heita í höfuðið á föllnum fjallkóngi okkar, Friðgeiri Guðjónssyni — blessuð sé minning hans — og gáfum því nafnið Geirafjall. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er komið inn í bækurnar eða hefur verið tilkynnt til örnefnanefndar, en það heitir núna Geirafjall meðal okkar sem förum um þessar slóðir nokkrum sinnum á hausti. Því verður alla vega ekki breytt hvað okkur varðar. Bara svona til að nefna dæmi um hvernig hlutirnir geta gengið fyrir sig.

Að síðustu langar mig aðeins að fjalla um nafngiftirnar á nýjum fyrirbærum. Það er þörf á því að einhvern veginn sé hægt að útkljá mál. Við skulum segja að það gjósi og það fari að renna hraun. Hverjir eru líklegir til að gefa því fyrst nafn? Það eru heimamenn eða til dæmis vísindamenn, jarðfræðingar. (Gripið fram í: Sjónvarpið.) — Já, svo geta fjölmiðlar reynt að stela glæpnum. En ég held að dæmin séu býsna mörg um það að það eru annaðhvort heimamenn á svæðinu og/eða vísindamenn sem starfa sinna vegna eru á vettvangi sem nefna hlutina eitthvað bara svona sem vinnuheiti þó ekki sé meira til að byrja með. Oft hafa þau nöfn síðan fest sig í sessi. Nú veit ég það ekki fyrir víst en ég læt mér detta í hug að það hafi verið Sigurður heitinn Þórarinsson, eða einhver af hans kollegum, sem gaf Surtsey nafn. Það skyldi nú ekki vera. Alla vega hefur sá maður eitthvað kunnað fyrir sér. Það væri til dæmis fróðlegt að kanna það hvernig nafngiftin Surtsey varð til og hvernig hún festist í sessi.

Menn hafa talað um Holuhraun á flæðunum norðan Dyngjujökuls af því þar var hraunbleðill úr gosi fyrir nokkru sem hafði þessa nafngift. Menn hafa síðan velt því fyrir sér hvort þetta nýja og mikla hraun, stærsta hraun á Íslandi eftir Lakagígagosin, eigi ekki að fá virðulegt nafn. Á það að heita Flæðahraun eða Nornahraun eða eitthvað slíkt? Ef menn verða ekki á eitt sáttir, ef þetta gerist ekki þannig, sem oft gerist, að smátt og smátt sigrar ein nafngift, þarf sjálfsagt að fá botn í það því að það er bagalegt að sama fyrirbærið beri mörg nöfn þó að þess séu auðvitað ófá dæmin. Að því leyti til er ég ekkert andvígur því að eitthvert kerfi sé á þessu. En samt togast á í mér, ég verð bara að viðurkenna það, að þetta þurfi líka að einhverju leyti að fá að lúta sínum eigin lögmálum eins og það hefur alltaf gert. Það er jafnvel ekkert að því stundum að sömu fyrirbærin, séð úr mismunandi átt, heiti fleiri en einu nafni, samanber hið fræga fjall fyrir norðan sem ber þrjú nöfn, Ófærufjall, Bakrangi og Galti, eftir því hvaðan horft er á það, allt sama fjallið í sjálfu sér og frægt í bókmenntunum.

Þegar sveitarfélög eiga í hlut er þetta kannski svolítið vandasamara. Þar hefur talsvert reynt á þetta á undanförnum árum vegna þess að menn hafa verið að sameina mikið sveitarfélög og oftar en ekki hefur ekki verið stemmning fyrir því að eitt af þeim héldi nafninu. Menn hafa þá valið þann kost sums staðar, þar sem stór þéttbýliskjarni hefur kannski verið í byggðarlaginu, sem hefur sameinast úr fleiri sveitarfélögum, en það getur verið viðkvæmt. Þá hafa menn farið í að finna upp nýjar nafngiftir og sumar ekki alveg nógu góðar finnst mér. Jafnvel svoleiðis að þær eru landfræðilega eða sögulega eiginlega hálfgerðar skekkjur. Ég ætla nú ekki að nefna dæmi í því samhengi vegna þess að það yrði viðkvæmt, en ég er þeirrar skoðunar að í nokkrum tilvikum hafi ekki tekist vel til, meðal annars vegna þess að aðrir höfðu einhvern veginn engan andmælarétt í því. Það liggur við að megi segja að nöfnum hafi hálfpartinn verið stolið sem tilheyrðu öðru svæði, öðrum stað á öðrum tíma, en einhvern veginn höfðu menn engan aðgang að því. Nýtt stórt sameiginlegt sveitarfélag jafnvel kaus um það í vinsældakosningu og nafngift sem marði sigur í þeirri kosningu varð ofan á, ekki endilega alltaf svona landfræðilega eða sögulega séð það sem manni fannst heppilegasta niðurstaðan.

Hér fær þá blessuð örnefnanefndin eitthvað að sýsla við. Ég út af fyrir sig held að það sé ágæt nálgun að færa sveitarfélögunum, eins og hér er lagt upp með, ríkara hlutverk og meiri ábyrgð í þessum efnum en að haft verði samráð við örnefnanefnd og allt það, þannig að vonandi tekst vel til í þessu öllu saman í framhaldinu.

Virðulegur forseti. Þetta voru nú þær athugasemdir sem ég vildi helstar gera hér. Ef málið skyldi fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. hefði ég gjarnan beðið hv. nefnd að líta aðeins á þetta með skilgreiningu hugtakanna og afmörkun á fyrirbærinu örnefni sem mér finnst aðeins of þröng eins og ég hef áður komið að. Síðan veit ég ekki hvernig menn vilja fara með þetta, hvort eitthvað er hægt að gera í lagatextanum sjálfum sem nær utan um þetta tvíeðli málsins, annars vegar að hafa eitthvert skipulag á því að koma þessu á hreint, að útkljá ágreining ef hann er til staðar um hvað einhver staður eða eitthvert fyrirbæri skuli heita, án þess þó að kæfa það að örnefnin verði til eins og þau hafa alltaf orðið til, af þeim sem búa á viðkomandi svæði, ferðast um viðkomandi svæði eða nýta viðkomandi svæði og hafa af praktískum ástæðum þörf fyrir örnefni. Þannig hafa þau að sjálfsögðu yfirleitt orðið til og þyrftu að verða til áfram. Það tengist því að áfram verði búið í þessu landi og stærri svæði en það sem þegar er orðið fari ekki í eyði. Vonandi verður það ekki, næg er byggðaröskunin orðin. Það er auðvitað langbesta og virkasta varðveisla þessa menningararfs að fólk búi á viðkomandi svæðum og nýti þau og þekki þau og viti hvað hlutirnir heita og passi upp á það, af praktískum ástæðum, að sá arfur fari ekki forgörðum.