144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það liggur fyrir að álits umhverfis- og samgöngunefndar, eða álita bæði meiri hluta og minni hluta þeirrar nefndar sem eru reyndar að verulegu leyti samhljóða í gagnrýni sinni á málið, er í engu getið í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar. Það hljóta að teljast dálítil tíðindi. Það er óskað eftir áliti annarrar fagnefndar í þinginu en það er ekki beðið eftir því að það komi og þess er í engu getið. Það er ekki komið inn á eitt einasta atriði, það er ekki nefnt á nafn, það er ekki birt með sem fylgiskjal. Ef ekki væri fyrir minni hluta atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, hefðum við aðrir þingmenn ekkert af því vitað. Þannig er það. Það segir sig alveg sjálft að þetta gengur ekki. Það er ekki hægt að vinna málin svona milli þingnefnda og efnislega auðvitað á engan hátt boðlegt, eins og það heitir.

Það hafa komið fram mjög vel rökstuddar óskir um að hér verði látið staðar numið í umræðu (Forseti hringir.) um þetta mál enda nóg önnur gagnmerk mál á dagskránni til að ræða inn í kvöldið eins og tillagan um ísaldarurriðann.