144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er fyrir neðan allar hellur. Það gengur ekki hvar hún er stödd. Ég bið hæstv. forseta að taka afstöðu til þess sem hér hefur verið nefnt bæði af hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur þar sem vísað er í 23. gr. þingskapalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.“

Ég vil fá upplýst frá hæstv. forseta um aðdraganda slíkrar vísunar. Hver getur óskað eftir slíkri vísun og hvernig fer hún fram? Þingsköp gera sannarlega ráð fyrir því og eins og hér hefur margkomið fram er málið engan veginn tilbúið til að fjallað sé um það í eðlilegri 2. umr. af því að það er vanbúið í byrjun og það er illa frá því gengið af hendi atvinnuveganefndar.

Svo bið ég hæstv. forseta að taka afstöðu til þess hvernig hv. þm. Jón Gunnarsson brýtur hér 19. gr. þingskapalaga (Forseti hringir.) þegar hann vitnar í orð sem falla á fundi nefndar. Í 19. gr. segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi …“ (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Á ekki að nefna þetta við hv. þingmann?