144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér þegar þingmaðurinn nefnir mögulegan bótarétt, sem gæti auðvitað verið verulegur fyrir ríkissjóð ef slíkt á að við rök að styðjast og haft í för með sér ófyrirsjáanlegan kostnað fyrir skattgreiðendur ef svona illa er um búið eins og hér virðist vera í þessari útfærslu, hvort það sé þá ekki nauðsynlegt að málið gangi til umsagnar hjá hv. fjárlaganefnd, af því að hv. þingmaður á þar nú sæti, til að fara yfir þann þátt málsins. En kannski það sé ástæðulaust ef nefndin sem hefur forræði málsins lætur ekki svo lítið að bíða eftir álitum annarra nefnda um málið.

Ég vildi spyrja þingmanninn jafnframt um óvissuna sem þessu virðist vera samfara og hvort það sé ekki í hennar huga alveg ljóst að það sé í raun og veru allra hagur að reyna að standa betur að þessari útfærslu þegar jafnvel þær stofnanir sem um þetta eiga að véla, m.a. stofnanir ríkisins, hafa í umsögnum sínum til þingsins lýst því að þeim sé ekki ljóst hvernig skuli fara með ákveðin atriði, hvort það geti ekki augljóslega skapað óvissu og vandamál við framkvæmd laganna sem sé óþarfi ef betur væri vandað til verka.

Kannski að síðustu. Er þingmanninum kunnugt um einhver sérstök vandamál sem kalla á þetta mikla inngrip ríkisins og miðstýringarvaldsins? Nú hafa sveitarfélög og ríkið rætt ólík sjónarmið um línulagningar víða um land en yfirleitt hafa menn, mér vitanlega, náð lendingu í þeim efnum og engin knýjandi nauðsyn eða skaðaður þjóðarhagur sem það kallar á (Forseti hringir.) að ríkið taki (Forseti hringir.) svona freklega til sín öll völd í málinu.