145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert viss um að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér varðandi það að Bretland verði áfram innan ESB. Ég held að það séu að minnsta kosti jafnar líkur á að það fari út. Ég er heldur ekki viss um að það sé verra fyrir Ísland eða ESB, en það er nú önnur saga.

Við erum sammála um það, hvað sem líður ágreiningi um einhver minni háttar mál, að Ísland, sem byggir á útflutningi, þarf að hafa viðskiptasamninga. Það er algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni.

Mér finnst vanta þarna viðskiptastefnu. Sú viðskiptastefna þarf að mótast af hagsmunum okkar og aðstæðum gagnvart stærstu mörkuðunum. Þegar um er að ræða þær miklu breytingar sem eru í aðsigi þar verðum við að bregðast við því. Ég er út af fyrir sig sammála öllum þeim möguleikum sem hv. þingmaður hefur reifað hér, t.d. gagnvart afstöðu Íslands ef TTIP-samningurinn verður. Þar eru ýmsir möguleikar uppi, en það þarf að klappa þann stein og við þurfum að hafa frumkvæði innan EFTA, af því að þar höfum við mikil áhrif.

Fríverslunarsamningar voru af mörgum álitnir úrelt gamaldags tæki. Ég, sem hef verið lengi á dögum hér í utanríkismálum, ég var lengi í utanríkismálanefnd, var fyrir löngu orðinn sannfærður um að ekkert mundi koma út úr þessum Doha-viðræðum. Það voru Doha-viðræðurnar sem ýttu fríverslunarsamningum út af borðinu hjá mörgum þjóðum og og það lá niðri sem tæki. Jú, gamaldags, úrelt, þrautreynt og mjög praktískt.

Það var einmitt þess vegna þegar ég kom að stjórnveli utanríkismála sem ég lagði strax mikla áherslu á tvíhliða samninga millum EFTA og ýmissa ríkja og ríkjabandalaga og Íslands eftir atvikum.

Ég held að það komi ekkert út úr þessum Doha-viðræðum og er ekki sammála hv. þingmönnum að það sé ESB að kenna, heldur fyrst og fremst hinni sérkennilegu pólitísku stöðu í Bandaríkjunum. Það var aldrei hægt að taka neinar ákvarðanir af því að það voru alltaf að koma viðkvæmar kosningar í Bandaríkjunum og þær eru, eins og menn vita, nánast á árs fresti.

En ég er þeirrar skoðunar að þá þurfi að fara í að skoða þetta. En ég held að það muni verða mjög erfitt að ná (Forseti hringir.) fríverslunarsamningi við Bandaríkin, tvíhliða eða með EFTA, en það er sjálfsagt (Gripið fram í.) að fara enn einu sinni í þann leiðangur.