145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fríverslunarsamningarnir eru mjög praktískt vopn, en þeir fóru úr tísku. Það voru engir fríverslunarsamningar í gangi miðað við það sem var hér árum saman. Menn voru allir að bíða eftir Doha og það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, Bandaríkjamenn höfðu frumkvæði að þeirri lotu. Það voru bandarískir hagsmunir, landbúnaðarhagsmunir, sem alltaf settu það í flækju og hnút, málið var alltaf of viðkvæmt vegna þess að það voru alltaf að koma kosningar, ýmist til þings, og þær eru nú á tveggja ára fresti, eða þá forsetakosningar. Bandaríkin gátu aldrei tekið af skarið varðandi viðkvæma landbúnaðarhagsmuni.

Varðandi stóru samningana, eins og til dæmis TTIP, eru það aftur bílar og landbúnaður sem verður erfiðast í þessu.

Hv. þingmaður skildi orð mín þannig að ég teldi að ekkert yrði úr TTIP. Það er rangur skilningur. Það verður eitthvað úr TTIP. Kannski ekki á þeim tíma sem hv. þingmaður nefndi hér, en niðurstaðan verður miklu útvatnaðri en var lagt af stað með í upphafi.

Viðskiptastefna fyrir Ísland er fínt mál sem hv. þingmaður hefur flutt og það er eitt af því sem skortir sem framtíðarsýn. Ég nefni til dæmis að í utanríkismálanefnd í morgun óskaði ég eftir því að TPP-samningurinn, þ.e. samningur 12 Kyrrahafsríkja um afnám tolla, yrði kynntur í utanríkismálanefnd, vegna þess að ég tel að sú staða komi upp að í tímans rás muni ríki eins og Ísland eða bandalag eins og EFTA eiga kost á því að skoða hvort það sé í þágu hagsmuna þeirra að gerast með einhverjum hætti aukaaðilar að því. Við þurfum alla vega að taka afstöðu til þess hvort það þjóni hagsmunum okkar.

Fríverslunarsamningar og aðild að slíkum bandalögum hefur kannski ekki í för með sér beinan ávinning í dag. Þetta eru eins og frækorn sem menn sá og það kemur að því að það verða tækifæri þarna sem hægt er að uppskera í gegnum. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem við eigum að reyna að ríða þetta net núna og hafa þetta allt tilbúið og geta gengið að þessum tækifærum í framtíðinni ef við þurfum á því að halda.