145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá greinargóðu skýrslu sem hér var flutt.

Hv. þingmaður er þekktur að því að tala mannamál. Ég held að vinsældir hans sem stjórnmálamanns helgist nú einmitt af því að hann hefur talað mannamál og hefur náð töluverðum vinsældum þannig langt umfram kannski vinsældir hans flokks sem hann starfar fyrir á þinginu.

Þess vegna langar mig að gera athugasemdir við orðanotkun hans þegar hann talar um viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi vegna ástandsins á Krímskaga. Ég vil vita hvort hv. þingmaður geti ekki verið sammála mér um það að aðgerðir Vesturlanda gagnvart Rússlandi séu í eðli sínu gjörólíkar þeim aðgerðum sem Rússland tók upp í kjölfarið. Aðgerðir Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Kanada, Nýja-Sjálands og fleiri landa beindust ekki að nokkru leyti gegn almenningi í Rússlandi heldur var um að ræða hnitmiðaðar refsiaðgerðir gegn tilteknum þáttum og tilteknum einstaklingum þar sem fyrir lágu rökstuddar upplýsingar um þátttöku þeirra í ólöglegu athæfi. Það sem laut að viðskiptum voru mjög afmarkaðir þættir í viðskiptum ríkisstjórnar Rússlands, m.a. með herfang, með vopn og annað slíkt.

Ég geri verulegar athugasemdir við það þegar menn tala um að þessar aðgerðir Vesturlanda séu þvingunaraðgerðir eða jafnvel einhvers konar hefting á viðskiptafrelsi. Um það er ekki að ræða. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti tekið undir það og gert grein fyrir því að um hafi verið að ræða afar afmarkaðar refsiaðgerðir.