146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar sem skrifar undir álitið og stendur einhuga og samhent að baki því enda góður samhljómur í ríkisstjórninni um þetta mikilvæga og stóra mál og meðferð þess hér á hinu háa Alþingi.

Frá því að ríkisstjórnin tók við, þann 11. janúar síðastliðinn, hefur það sannarlega verið spretthlaup að ná að fullnusta þau mál sem hin nýju lög um opinber fjármál gera ráð fyrir að þingið taki til meðferðar hverju sinni. Við höfum sannarlega upplifað það að það var ekki heppilegasti tíminn að taka við um miðjan janúar út frá þeim lagaramma sem þau ágætu lög setja um framsetningu hinna ýmsu mála sem fylgja hinum nýju lögum um opinber fjármál, þ.e. fjármálastefnuna sem við ræddum hér fyrr í vetur og afgreiddum við atkvæðagreiðslu rétt áður en fjármálaáætlun var lögð fram og síðan að vinna að fjármálaáætlun til næstu ára. Síðan kemur þingmálið sjálft, fjárlögin, eðlilega fram að hausti eins og lög gera ráð fyrir.

Það fellur ekki sérstaklega vel að tímalínu hinna nýju laga að hafa ríkisstjórnarskipti í janúar. Í því ljósi má kannski skoða ýmislegt af því sem komið hefur upp í meðferð nefndarinnar á þingmálinu og líka það að við erum í raun að keyra lögin í fyrsta sinn í veruleikanum. Allar þær afurðir sem við sendum nú frá okkur, öll þau þingmál sem nú eru unnin, eru í raun unnin í fyrsta sinn. Þó að við höfum á þinginu í fyrravor samþykkt fyrstu ríkisfjármálaáætlun til fimm ára þá markar þessi afgreiðsla nokkur kaflaskil.

Fyrirkomulag umfjöllunar á Alþingi hefur í sjálfu sér líka þurft að taka mið af því að við erum að fást við þetta verkefni samkvæmt nýjum lögum og erum að fóta okkur í þeim efnum. Við höfðum þann háttinn á að fjárlaganefndin vísaði einstökum köflum fjármálaáætlunar til fagnefnda þingsins og fagnefndirnar unnu á sínum málefnasviðum greiningarvinnu og skiluðu síðan umsögnum. Ég vil í upphafi geta þess, virðulegi forseti, að þær umsagnir sem koma frá þeim nefndum, meiri hluta og minni hluta, eiga að skoðast sem hluti af þeirri afgreiðslu sem þingið kemur að hér í dag. Þó svo að fjárlaganefnd geri í nefndaráliti sínu ákveðnum þáttum þeirra umsagna hærra undir höfði en öðrum ber ekki að líta á það á annan hátt en þann að við séum að skerpa á áherslum sem við töldum rétt að taka betur utan um í vinnu okkar.

Verkaskiptingin var með þeim hætti að fjárlaganefnd fjallaði um áætlunina sjálfa og skiptist það í fimm kafla með inngangi sem er 1. kafli. Hinir nefnast: Efnahagsforsendur, framvinda og horfur, Fjármál hins opinbera og opinberra aðila, Fjármál ríkissjóðs og Fjármál sveitarfélaga.

Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um tekjur ríkissjóðs sem er hefðbundið hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar í ríkisfjármálaumræðum en fjárlaganefnd fjallaði sjálf um þrjú málefnasvið er varða skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu, vexti, ríkisábyrgðir, lífeyrisskuldbindingar og varasjóð. Aðrar fastanefndir, eins og fyrr segir, komu að umfjöllun um önnur málefnasvið og skiluðu um það umsögnum.

Við ræðum vafalaust í þessari umræðu um reynsluna af þessu og ég kem nánar að því í ræðu minni síðar hvernig þetta verklag getur áfram skilað okkur árangri. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa, nú þegar við hefjum seinni umræðu um þessa þingsályktunartillögu, um að þau vinnubrögð og sú verkaskipting sem við höfðum í þinginu tryggir að við höfum þingheim sem er vel að sér um málefni sinna fagnefnda, sem þingmenn sitja í, og yfirsýn yfir verkefnin sem blasa við okkur og þau markmið sem við ætlum að setja okkur. Það er vafalaust allt með betra móti en áður hefur verið, án þess að ég ætli að tala af háum stalli til þingmanna fyrri ára. Ég segi bara: Við höfum núna öll saman mokað okkur í gegnum þennan skafl og komið fram með ábendingar, fyrirspurnir og skerpt á þeirri stefnu sem nauðsynlegt er að undirbyggja.

Ég vil með þessu segja að vinna fjárlaganefndar og þingnefnda á örugglega eftir að mótast og verður að taka framförum. Fjárlaganefndin sem ákvað að senda þetta til fagnefnda þingsins hafði fyrst og fremst þann ávinning af því að láta fagnefndirnar sem hafa mestu sérfræðiþekkinguna á viðkomandi málefnasviðum glíma við að tengja saman ýmsar athafnir sem fagnefndirnar eru sjálfar að fást við í daglegum störfum í þinginu og hvernig þær ríma þá við markmiðin. Það er nefnilega líka eitt af því sem við þurfum að láta batna í meðförum þingsins á einstökum þingmálum, þ.e. vitund fagnefndanna á því að útgjaldabreytingar eða tekjubreytingar sem fylgja afgreiðslu einstakra þingmála verða að ríma við þær áætlanir sem þingið samþykkir og þingið setur sér.

Fjárlaganefndin ákvað við þessa afgreiðslu að gera ekki breytingartillögu við þingsályktunartillöguna sjálfa en leggja fram ábendingar og setja, í umsögnum sínum, ríkisstjórninni og framkvæmdarvaldinu fyrir ákveðna þætti vegna undirbúnings næstu fjárlagagerðar eða næstu fjármálaáætlunar. Það verklag má vafalaust ræða ítarlega og um það deila á margan hátt en við rekjum það líka í nefndaráliti okkar. Flestar fagnefndirnar og líka fjárlaganefndin voru sammála um að þau verkfæri sem við höldum á í starfi okkar þurfa líka að taka ákveðnum framförum til að við getum þá undirbyggt afgreiðslu okkar betur og nánar.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla um þau vinnubrögð og þau tæki sem við teljum okkur þurfa að koma okkur upp í framhaldi af breyttum vinnubrögðum.

Við nefnum líka í nefndaráliti okkar að framsetninguna á þingsályktunartillögunni hefði mátt bæta. Ég vísaði til þess ógnarstutta tíma sem leið frá því að ríkisstjórnin tók við þar til þetta stóra mál kom inn í þingið. Ég segi hiklaust að vafalaust hefði mátt bæta framsetninguna verulega og fjölmargar umsagnir bárust í þá veru. Meðal annars bárust ábendingar frá fjármálaráði í þá veru og ég veit til þess að í fjármálaráðuneytinu er verið að greina þessar athugasemdir, líklega í einum 29 efnisatriðum. Fjárlaganefnd fékk upplýsingar um það á fundi með hæstv. fjármálaráðherra, er hann kom til fjárlaganefndar undir lok umfjöllunar um þingmálið, með hvaða hætti verið er að bregðast við þeim athugasemdum og bæta þessa framsetningu.

Fjárlaganefnd gerir tilraun til þess í nefndaráliti sínu að bæta úr og greina þarna á milli stofnkostnaðar og reksturs og auka þannig skýrleika í framsetningu þeirrar áætlunar sem hér er. Nú ætti að vera auðveldara að átta sig á stefnu okkar í fjárfestingum og stefnu okkar í rekstri til lengri tíma. Við beinum því líka til yfirstjórnar Alþingis að endurskoða starfsáætlun Alþingis alveg frá grunni með tilliti til hinna nýju laga.

Ég tel fullkomlega raunhæft að við breytum líka tímasetningum til að bæta umfjöllun um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp. Ég vil meina, og við ræðum það vafalaust í þeirri umræðu sem við munum eiga hér í framhaldinu um fjármálaáætlun, að það sé vel gerlegt, eftir að við höfum farið jafn ítarlega yfir fjármálaáætlunina og við höfum gert að þessu sinni og munum þá bæta það verklag, að umræðan um fjárlagafrumvarp taki þá mögulega styttri tíma að hausti en verið hefur. Mér finnst það vera markmið sem við ættum að setja okkur að ljúka umfjöllun og afgreiðslu fjárlaga fyrir 20. nóvember ef þess er nokkur kostur og miða starfsáætlun þingsins við það. Við vinnum það helst með því að ef okkur tekst það getum við tekið fjármálaáætlunina fyrr inn í þingið að vetrinum, eftir áramótin, til að hafa þá betra ráðrúm til að rýna stefnumiðin, markmiðin, og þær aðgerðir sem við viljum beita til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur.

Ég vil sérstaklega nefna það sem hefur verið áberandi í umræðum um fjármál ríkisins, ekki bara um þetta þingmál heldur líka mál sem hefur borið inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með ákveðnum hætti, þ.e. aðkoma alþingismanna að fjárlagagerð og fjármálastjórn hins opinbera. Við segjum, með leyfi forseta, í nefndarálitinu:

„Sjálfstæði Alþingis og þingmanna við fjármálastjórnina verður að treysta. Alþingismenn og fagnefndir þingsins verða að hafa aðgang að öflugu stoðkerfi. Í umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er t.d. fjallað um nauðsyn þess að efla hagrænar greiningar. Meiri hluti fjárlaganefndar tekur undir það og telur að verulega skorti á að fjárlaganefnd geti að óbreyttu rækt hlutverk sitt fyllilega í breyttu umhverfi opinberra fjármála. Þar er ekki síst brýnt að huga að verkefnum á sviði eftirlitshlutverks nefndarinnar og sjálfstæði hennar til að vinna að greiningum og eftirliti með hvernig og hvort samþykkt markmið og aðgerðir ná tilgangi sínum á einstökum málefnasviðum.“

Ég skal bara gera þá játningu hér, virðulegi forseti, eftir að hafa keyrt starf fjárlaganefndar á þessum vetri, við þær sérstöku aðstæður og á þeim sérstöku tímum að ríkisstjórn tók við í janúar, að önnur hefðbundin hlutverk fjárlaganefndar, eins og eftirlitshlutverkið, hafa því miður þurft að sitja á hakanum. Ég held að það sé líka mikilvægt að við áttum okkur á því að ef við eigum að sinna eftirlitshlutverkinu í þessu breytta umhverfi á grundvelli stefnumarkmiða, fylgjast með því hvernig stefnunni er framfylgt, hvernig þeim markmiðum sem við ætlum að vinna að er náð, verðum við með einhverjum hætti líka að breyta verklaginu í þeim efnum. Við erum örugglega ágæt — og höfum alveg sýnt það í fjárlaganefnd á undanförnum árum og fjárlaganefndir undanfarinna ára — í að greina allar tölur sem undir liggja í rekstrinum, alla ráðstöfun fjármuna, en við getum örugglega bætt verklag okkar og vinnubrögð og hvernig við náum markmiðum okkar.

Fjöldi umsagna vegna þessarar áætlunar er hátt í 200 og þar af er tæplega þriðjungur frá aðilum tengdum ferðaþjónustu, sem gerðu athugasemdir við þau áform að gistiþjónusta og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi væri færð úr neðra þrepi í almennt þrep. Mikil umfjöllun hefur orðið um þær breytingar enda eru þær kannski umdeildasta atriði þeirrar fjármálaáætlunar sem við fjöllum hér um. Því kom þessi fjöldi umsagna inn til þingsins.

Ég nefni það oft í umræðum um þingmál, þegar við erum að fjalla um afurð nefnda, að við tökum kannski ekki nægilega vel utan um það hversu aðgengilegt Alþingi er fyrir félagasamtök og fyrir einstaklinga til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, hvort sem það er mótmælum eða stuðningi eða áhuga sínum á breytingum. Mér finnst þetta nefnilega vera einn af þeim þáttum þingstarfanna sem ég skal játa að ég uppgötvaði í meira mæli eftir að ég settist inn á þing, þ.e. hversu mikil aðkoma almennings er og áhrif á lagasetningu á Alþingi og afgreiðslu þingmála. Þetta eru atriði sem mér finnst við ekki lyfta nægilega undir og ræða. Þetta skapar okkur ákveðna sérstöðu og er í mínum huga að vissu leyti svarið við umræðum sem við heyrum mjög oft um að Alþingi sé einangruð stofnun og fólk hafi þar lítil áhrif. Það er nefnilega þveröfugt. Fólk á greiðan aðgang að því með því að senda inn umsagnir um þingmál. Mér finnst líka, vegna umræðu sem varð í kjölfar þess að við sendum þingsályktunartillöguna um fjármálaáætlun til umsagnar, og aðilar fóru að finna að því að þeir hefðu ekki fengið sendar beiðni um umsagnir, mikilvægt að leiðrétta það og koma því á framfæri að ekki þurfa að koma beiðnir um að senda inn umsagnir til þingnefnda í öllum þingmálum. Vel má vera að Alþingi ætti aðeins að skerpa á þessu verklagi. Ég nefni það hér að mögulega ættu þingnefndir að hætta að senda sérstökum aðilum umsagnarbeiðnir en Alþingi að setja þingmál á vef þingsins og óska eftir umsögnum þannig að öllum sé ljóst að menn hafa jafna stöðu til að senda inn umsagnir. Þetta er kannski önnur umræða en um fjármálaáætlun en í ljósi þess að við erum með önnur vinnubrögð gæti þetta verið eitt af þeim atriðum sem við þyrftum að skoða.

Mesti þunginn í umsögnum um þingmál er tengjast fjárlagagerð og fjármálaáætlun er samkvæmt nýjum lögum álit fjármálaráðs. Fjármálaráð hefur í áliti sínu sett fram gagnrýni sem vert er að taka tillit til og er fjárlaganefnd kunnugt um að í undirbúningi eru markvissar aðgerðir til að bregðast við því, eins og áður sagði. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, er hlutverk fjármálaráðs að leggja mat á hvort fjármálaáætlun fylgi grunngildum laganna og álit ráðsins skal birt opinberlega. Ráðið hefur skilað ítarlegri álitsgerð og bæði nefndin og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa farið yfir hana með tilliti til endurbóta. Meiri hlutinn tekur undir ýmislegt sem ráðið bendir á en meðal þess er eftirfarandi — og ég nefni hér helstu punkta, virðulegi forseti:

1. Lykiltölur eru ekki alltaf settar fram með samræmdum hætti sem getur gert samanburð erfiðan og er ekki í anda gagnsæis. Í fjármálastefnu eru markmið um afkomu sveitarfélaga og ríkissjóðs sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en í áætluninni er framsetningin eingöngu á tölulegu formi en ekki sem hlutfall.

2. Á ákveðnum sviðum opinberra fjármála er þörf á meiri greiningum og styrkingu innviða sem snúa að spágerð og stefnumörkun. Til dæmis kemur ekki fram hvort mat hafi verið lagt á hagræn áhrif sértækra aðgerða, svo sem breytinga á virðisaukaskatti.

3. Bent er á að ákveðinnar einsleitni gæti varðandi þjóðhagslíkön og spágerð sem liggja að baki mati á efnahagsástandi og efnahagshorfum. Allir helstu greiningaraðilar notast við líkan Seðlabankans við spágerð sína. Huga þarf að nýju verklagi og gerð þjóðhagslíkans sem taki betur mið af þörfum opinberra fjármála.

Virðulegi forseti. Þessir þrír punktar ramma kannski aðeins inn það verkefni sem við höfðum í höndum við að fjalla um álit á fjármálaáætlun næstu ára og segja okkur að við þurfum að bæta ýmislegt. Þriðji punkturinn sem ég vísaði til, um þjóðhagslíkön, byggir líka undir þann þátt sem ég nefndi hér áðan um hlutverk þingsins og vinnulag þingsins og þau tæki sem þingið skortir mögulega til að leggja með ákveðnum hætti mat á ýmislegt sem fyrir það er lagt.

Ég vísa síðan til nefndarálits meiri hlutans um fleiri atriði sem fjármálaráð nefnir í umsögn sinni og við erum á ákveðinn hátt að lyfta undir með því að taka það hér upp. Að sjálfsögðu stendur álit fjármálaráðs vel fyrir sínu og er mjög áhugavert að lesa það frá orði til orðs og sjá að það tæki sem fjármálaráð er mun líka taka þroska og geta bætt verulega umræðu um opinber fjármál.

Í langan tíma hefur það verið mjög gildur þáttur í starfi fjárlaganefndar hverju sinni, þegar fjallað er um fjárlög á haustin, að taka á móti gestum til nefndarinnar og þá sérstaklega fulltrúum sveitarfélaga. Fjárlaganefnd ákvað núna að senda fjármálaáætlunina til landshlutasamtaka sveitarfélaga og biðja þau að skipuleggja heimsóknir til nefndarinnar hvert á sínu sviði. Við vorum með því móti að opna sviðið á þann hátt að hleypa sveitarfélögunum fyrr að fjárlagagerðinni, eða fyrr að stefnumörkun í opinberum fjármálum, en verið hefur. Við sem áður höfum setið í fjárlaganefnd að hausti höfum þekkt það vinnulag að sveitarstjórnarmenn koma með umsagnir um fjárlagafrumvarp hverju sinni og setja þá líka fram þær áherslur sem þeir vilja leggja vegna ýmissa verkefna á sínum heimasvæðum — eðlilega, það er erindi þeirra til löggjafans að reyna að hafa áhrif á hann með þessum hætti. En með því að opna þetta samtal á þessu stigi í umfjöllun um fjármálaáætlun vildum við gefa landshlutasamtökunum, samtökum sveitarfélaga og sveitarstjórnunum sjálfum tækifæri til að mæta fyrr til leiks og bera fyrr upp áhyggjur sínar og tillögur og beiðnir.

Við undirstrikum það í álitinu að í vinnu okkar vísum við þeim minnisblöðum sem sveitarstjórnir hafa sent fjárlaganefnd með ákveðnum hætti til fagráðherra hvers málefnasviðs vegna þess að í þessu nýja umhverfi okkar höfum við falið einstökum ráðherrum ákveðna forgangsröðun fjármuna og það er mikilvægt að við nefnum það í niðurstöðupunktum okkar að ráðherrarnir opni líka farveg fyrir þetta samtal við sveitarfélögin. Við eigum í sjálfu sér engan stærri samherja eða samverkamann í opinberum fjármálum en sveitarfélög í samtalinu um forgangsröðun og þau verkefni sem liggja undir á hverju málefnasviði fyrir sig.

Við bundum líka nokkrar væntingar við það að ræða við sveitarfélögin og vildum gjarnan eiga samtal við landshlutasamtök og sveitarfélög í kjölfar þessarar afgreiðslu í fjárlaganefnd um það hvernig við getum bætt þetta samtal. Við ræddum talsvert um það við afgreiðslu fjármálastefnunnar að verulega vantaði upp á það að við gætum greint efnahagslegt ástand einstakra landshluta á hverjum stað fyrir sig. Við höfum rætt talsvert um það í fjárlaganefnd að okkur skorti ákveðið mælaborð um það hvort samdráttur eða þensla er í viðkomandi landshluta, hvernig mögulega væri hægt að raða opinberum framkvæmdum upp með öðrum hætti til að hafa áhrif á þenslustigið í efnahagsmálum sem fer sannarlega hækkandi. Við boðum það í nefndaráliti okkar að við viljum taka upp samtal við landshlutasamtök sveitarfélaga til að ræða hvort þau geti, með samræmdu verklagi sín á milli, komið sér upp einföldum mælaborðum sem gætu gagnast við framtíðarumfjöllun um efnahagsstjórn á Íslandi.

Ég vil nefna það til viðbótar að fjárlaganefnd fjallaði talsvert um fjárfestingarstig og fjárfestingar sem ekki eru bara á hendi hins opinbera heldur fjárfestingarstig almennt í landinu. Fjárlaganefnd hóf upplýsingaöflun á því sviði með því að leita samstarfs við Samtök iðnaðarins og fleiri aðila, t.d. um ástand á byggingarmarkaði, útboðsmarkaði ýmissa framkvæmda og þar fram eftir götunum, sem við gætum þá mögulega notað sem einhvers konar mælitæki á það hvernig fjárfesting er að þróast í landinu. Það er kannski á því sviði, eins og við komumst að í umfjöllun okkar um fjármálaáætlun og fjármálastefnuna reyndar líka, sem við stöndum hvað veikust fyrir, þ.e. hvernig við eigum að meta fjárfestingarstigið. Við þekkjum áform ríkisins, við þekkjum áform sveitarfélaga en við erum með miklu óskýrari mynd hvað varðar einkamarkaðinn sjálfan. Aðferðir eins og að telja byggingarkrana eru góðar og gildar en ég held að nauðsynlegt sé að við náum aðeins lengra og náum meiri árangri á því sviði að mæla þetta með þessum hætti og þá ekki síður innan einstakra landshluta.

Við birtum í áliti okkar tvær megintöflur sem ekki voru í upphaflega þingmálinu. Við getum kallað aðra þeirra fjárfestingartöflu og hina þróun á framlögum til ýmissa málefnasviða til rekstrarins. Almennt má segja um þetta þingmál að það boðar ofboðslega útgjaldaaukningu. Gagnrýni umsagnaraðila á fjármálaáætlun var einkum tvenns konar: Hún er allt of hvatvís til útgjaldaþenslu og hún er allt of sparsöm til útgjalda. Það er verkefni að rata stigið þarna á milli. Við höfum mæla í hagkerfinu til að segja okkur hvernig það gengur. Það liggur þá fyrir, og birtist skýrt í nefndaráliti okkar, hvernig útgjöld til einstakra málefnasviða eru að þróast. Það er í engu samræmi við það sem við getum ráðið af þeirri opinberu umræðu sem fer fram um ýmsar athafnir okkar og fyrirætlanir.

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér fjallað í löngu máli um ýmis atriði nefndarálitsins okkar en það kom líka fram við vinnu í fjárlaganefnd að segja má að ákveðnar forsendur hafi breyst á meðan á umfjölluninni stóð. Til dæmis urðu uppkaup á erlendri skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs, sem hvorki er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun, sem var samþykkt í fyrra, né í fjárlögum, sem nú eru, og eru ekki útfærð nákvæmlega í þeirri fjármálaáætlun sem við fjöllum hér um, en þau breyta myndinni verulega. Við fjöllum um þau í nokkrum orðum í nefndarálitinu þar sem við drögum í raun saman að sparnaður af þessari aðgerð á áætlunartímabilinu sé metinn á 11,3 milljarða en af henni er líka nokkur kostnaður á þessu ári. Það er því í sjálfu sér ekki ástæða til að breyta fjárlögum þessa árs vegna þessa eða fjármálaáætlun fyrir árið en við viljum vekja athygli á því að þessi eina aðgerð, sem var stór og mikilvæg, þýðir að ríkissjóður mun til lengri tíma spara veruleg útgjöld. Við gerum enga tillögu um að ráðstafa því útgjaldasvigrúmi sem þar verður til nema síður sé. Ég held aftur á móti að það sé mikilvægt að við bætum frekar í þann afgang sem við þyrftum að stefna að því að hafa í opinberum fjármálum. Við nefnum líka að áætlanir um arðtöku eða arðgreiðslur hafa breyst en þær ganga þá að verulegu leyti upp í þann kostnað sem af þessari stóru aðgerð hlýst.

Ég vil undirstrika að í umræðu sem hefur sprottið upp eftir að fjárlaganefnd afgreiddi frá sér meirihlutaálitið um fjármálaáætlun eru menn kannski ekki alveg að fóta sig í því hvað við erum raunverulega að gera. Við erum, eins og ég sagði í upphafi ræðunnar, ekki að gera breytingartillögur við töflurnar í hinni raunverulegu þingsályktunartillögu. Við setjum aftur á móti fram ýmsar ábendingar sem við rekjum undir lok nefndarálitsins. Í þessu máli erum við sem sé ekki að falla frá neinum hækkunum eða breytingum á virðisaukaskatti. Við erum að segja að við ætlum að sækja þetta mikið af tekjum og verja þetta miklum fjármunum og skiptum því gróft niður á þau málefnasvið sem þar eru rakin. Aftur á móti gerir fjárlaganefnd, í ábendingum sínum til ríkisstjórnarinnar, ráð fyrir að endurmeta verði ýmsar fyrri áætlanir í þeim efnum. Við leggjum bæði til aðra gjaldtöku eins og komugjöld. Umræða um komugjöld hefur verið allmikil á undanförnum árum. Við erum ekkert að segja að það sé hinn eini rétti sannleikur, að við höldum á einhverjum stórasannleik í þeim efnum, en ég held að það sé mikilvægt að við tæmum þann poka sem í þeirri umræðu er. Við þekkjum öll gallana sem af því geta hlotist, álagningu á innanlandsflug og þessa þætti sem við getum mögulega sagt að séu gallar við það, en það eru líka ýmsir kostir við komugjaldaleiðina. Ég nefndi áðan að við teljum, eftir að hafa farið yfir ríkisfjármálaáætlun, að mögulega sé meiri afgangur af ríkisfjármálum en nákvæmlega er tíundaður í áætluninni.

Ef ég hverf undir lok þessarar ræðu minnar að einstökum málefnasviðum þá fjöllum við, bæði í fagnefndum og í fjárlaganefnd, um einstök málefnasvið. Þar kemur í ljós, og við drögum það rækilega fram í þessari nýju töflu okkar um ráðstöfun fjármála, hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er til málaflokka á sviði heilbrigðismála og til innviða, samgöngumála og fjarskiptamála. Við fjöllum talsvert um þessa málaflokka sem ég tel að sé nauðsynlegt að við tökum inn, eins og til dæmis við áætlanir samgönguráðherra um að greina kosti og galla þess að taka upp aðra fjármögnun í samgöngukerfinu. Við nefnum hvort ekki eigi að breyta fjármunum sem við bindum í flugstöðinni í Keflavík í önnur samgöngumannvirki. Ég hef mikla ánægju af því hvað þetta atriði okkar hefur náð mikilli athygli vegna þess að menn hafa viljað leggja í það ýmsan skilning sem við skulum bara ræða. Þetta er í sjálfu sér alveg samkynja ákvæði og við vorum með í samþykkt fjármálastefnunnar í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hér síðastliðið vor þar sem við fjölluðum líka um þessi mannvirki á Keflavíkurflugvelli og hvernig við ætlum að breyta því. Það er orðið þannig að flugstöðvar sem eru í blandaðri eigu ríkis og einkaaðila standa á bak við um 80% af öllu flugi í Evrópu. Það er ekkert sem getur bannað okkur að fjalla um hvort það sé endilega besta fyrirkomulagið sem við höfum á rekstri flugstöðvarinnar í Keflavík í dag. Það geta verið ógnanir og líka tækifæri við það. Við skulum þá bara ræða það. Þetta er samt veruleikinn, þetta blandaða eignarhald er orðið miklu algengara en áður var.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég hlakka til þessarar umræðu. Ég vil vekja athygli á því að undir lok nefndarálitsins drögum við saman í örfáa punkta þau atriði sem við vildum að ríkisstjórnin skoðaði sérstaklega fyrir fjárlagagerðina í haust. Ég gæti mögulega talið þá upp eftir mikilvægi en kýs að gera það ekki.