146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að taka það skýrt fram að við skiljum hæstv. fjármálaráðherra alls ekki einan eftir. Við erum einmitt sérstaklega í bakvarðasveit hans til að koma hér fram með góðar tillögur. Hann hefur opnað sínar bækur og sagt hvaða áherslur hann leggur, við endurspeglum umræðu og umsagnir sem um það mál bárust. Það er síðan hans og ríkisstjórnarinnar að undirbúa framhaldið. Hann er því alls ekki skilinn eftir einn á ísjaka einhvers staðar rekandi stjórnlaust, nema síður sé. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur með áliti og afgreiðslu þingsins fengið gott gagn til að vinna með til lengri tíma.

Varðandi einkavæðingu flugvallarins, og þá ætlar nú gamall formaður Bændasamtaka Íslands ekki að halda að hann sé einhver frjálshyggjupostuli í ræðustól Alþingis, nema síður sé. Maður varfærinn. (Gripið fram í: Koma svo!) En mér finnst að við eigum að skoða það með opnum huga. Á ríkið endilega að vera að reka verslunarmiðstöð með kaffiteríur og aðra þá þjónustu sem þar er rekin? (Gripið fram í.)

Varðandi vantraust á stjórnendur spítalans: Nei, alls ekki. Við viljum að (Forseti hringir.) heilbrigðisráðherra skoði þann möguleika hvort við getum bætt og eflt stjórnendur Landspítalans í þeirra mikilvægu verkum með því að setja öflugt lið með þeim.