146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hafa komið fram nokkrar áhugaverðar ábendingar og atriði sem ég tel að við þurfum að fjalla aðeins um. Nú er það svo að í stefnu ríkisstjórnarinnar á að leggja áherslu á heilbrigðismál. Sú áhersla virðist nær eingöngu bundin við byggingu nýs spítala. Ef stofnkostnaður og kostnaður utan ramma er dreginn frá þá er forgangsröðun til heilbrigðismála heil 8,8%, sem er þó nokkuð undir hagvaxtarspá sem er 14,5%.

Í áliti meiri hlutans er einnig talað um að endurskoða þurfi samninga við sérfræðilækna. Það vísar beinlínis í orð landlæknis sem talar um að öryggi sjúklinga sé ógnað út af því hversu erfitt sé að manna Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri sérfræðilæknum. Ég tel því að við þurfum að ræða mjög alvarlega um þennan hluta fjármálaáætlunar og hvernig við ætlum að fara í þessi mál á næstu árum. Það þarf nauðsynlega að leysa þetta vandamál.

Hitt vandamálið, sem ég tel að við þurfum að einbeita okkur að, er sú staðreynd að ein af grunnforsendum fjármálaáætlunar er að gengið sé stöðugt. Nú hefur það styrkst um 11–12% gagnvart bandaríkjadollara frá því að áætlunin var lögð fram. Sú forsenda er algjörlega farin. Við höfðum engar sviðsmyndagreiningar eða neitt um það hvaða áhrif það hefði á fjármálaáætlunina ef gengið styrkist eða veikist og hvað þá um 11–12%. Ég tel því að margar forsendur fjármálaáætlunar séu brostnar. Ég veit ekki hverjar af því að engin greining er á því hvaða áhrif gengisþróun hefur á þessi mál. Mig langar til að byrja þessa umræðu í andsvari við hv. þingmann.